Íbúðir seljast hægar og fleiri undir ásettu verði

Fleiri íbúðir eru nú til sölu en síðustu mánuði. Færri …
Fleiri íbúðir eru nú til sölu en síðustu mánuði. Færri íbúðir seljast yfir ásettu verði og fólk virðist í auknum mæli færa sig í verðtryggð lán. mbl.is/Sigurður Bogi

Íbúðum í sölu hefur fjölgað að undanförnu og eru nú 1.800 íbúðir til sölu á höfuðborgarsvæðinu. Hefur þeim fjölgað um 300 á þremur mánuðum. Þá er sölutími eigna einnig að lengjast og fleiri íbúðir seljast undir ásettu verði en áður. Eru þær tölur nú áþekkar því sem sást fyrir faraldurinn. Þetta er meðal þess sem kemur fram í mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Fram kemur að í maí hafi 11% íbúða í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu selst yfir ásettu verði, en það er lækkun frá því í apríl þegar hlutfallið var 13%. Hins vegar seldust 12,3% sérbýla yfir ásettu verði og fjölgaði þeim nokkuð frá fyrri mánuði.

Þegar kemur að sölutíma eigna sést að rétt innan við 10% eigna í fjölbýli, sem voru til sölu um miðjan apríl, voru seldar 30 dögum síðar. Segir HMS að þetta hlutfall hafi ekki verið jafn lágt frá miðju ári 2020, en þá var framboð íbúða til sölu samt nokkuð meira. Þegar komið er í dýrari eignir er sölutíminn jafnvel lengri, en aðeins 5% eigna sem voru til sölu um miðjan apríl og voru í dýrasta fjórðungi eigna höfðu selst 30 dögum síðar.

Einnig hefur hægt á sölu nýrra íbúða, en þegar horft er til meðaltals síðustu þriggja mánaða hafa 9,9% seldra eigna verið nýjar íbúðir. Var hlutfallið á sama tíma í fyrra 15,5% og árið áður 19,5%.

Hrein ný útlán til heimila námu samtals 2,9 milljörðum í apríl, en til samanburðar voru þau þau 8,2 milljarðar í mars. Hrein ný útlán hafa ekki verið svo lá á föstu verðlagi síðan í apríl 2014, ef frá eru talin tvö tímabil árin 2015 og 2016 þegar leiðréttingin og séreignarsparnaðarúrræði skekktu myndina.

Þá dragast óverðtryggð útlán til heimila saman og bendir HMS á að heildartala þeirra hafi lækkað um 2 milljarða í apríl, en þau lækkuðu fyrst í febrúar um 390 milljónir áður en þau jukust á ný í mars um 960 milljónir. Segir HMS að þetta sé að öllum líkindum til marks um að heimilin séu farin að færa sig úr óverðtryggðum lánum yfir í verðtryggð vegna hárra stýrivaxta.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK