Líklega minni þörf á frekari vaxtahækkunum

Hildur Margrét, sem starfar sem hagfræðingur hjá Landsbankanum, og Ásgeir …
Hildur Margrét, sem starfar sem hagfræðingur hjá Landsbankanum, og Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. Samsett mynd

Hagfræðingar Landsbankans telja vaxtahækkanir peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands farnar að hafa skýr áhrif. Því sé hugsanlegt að minni þörf sé á frekari vaxtahækkunum. Peningastefnunefnd tekur næstu vaxta­ákvörðun 23. ág­úst. 

Síðustu þrjá mánuði hefur greiðslu­korta­velta heim­ila dregist sam­an á milli ára. Þá var greint frá því í dag að vísi­tala íbúðaverðs hafi ekki lækkað jafn­mikið milli mánaða síðan í des­em­ber 2010 og að síðasta árið hafi raun­verð íbúða á höfuðborg­ar­svæðinu lækkað um 5,7%.

„Þessar tölur á fasteignamarkaði og á greiðslukortaveltu eru klárlega eitthvað sem peningastefnunefnd horfir til við vaxtaákvörðun,“ segir Hildur Margrét Jóhannsdóttir, í hagfræðingur í hagfræðideild Landsbankans, í samtali við mbl.is.

Seðlabankinn.
Seðlabankinn. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Teljið þið sum sé að peningastefnunefnd muni ekki leggja til hækkun á vöxtum í ágúst?

„Við viljum alls ekki fullyrða það því það getur enn þá alveg verið. Við teljum nýjustu gögn þó frekar benda til þess að vaxtahækkanir séu farnar að hafa skýr áhrif og því hugsanlega minni þörf á frekari vaxtahækkunum en við töldum áður. Við erum samt ekki farin að spá því að vaxtahækkanaferlinu sé lokið, en þetta þannig séð bendir í rétta átt,“ segir Hildur Margrét.

Klárlega farið að hægja á húsnæðismarkaðnum

Vísi­tala íbúðaverðs lækkaði um 1,1% milli mánaða í júní sam­kvæmt töl­um Hús­næðis- og mann­virkja­stofn­unn­ar. Hildur segir lækkunina meiri en hagfræðingar bankans hafi átt von á.

„Það kom okkur aðeins á óvart. Við bjuggumst ekki við svona mikilli lækkun en það borgar sig samt ekki að lesa of mikið í eina tölu því þessar tölur sveiflast ansi mikið á milli mánaða.“

Hildur segir augljóst að húsnæðismarkaðurinn sé að kólna. Hún bendir á að árshækkun vísitölunnar hafi farið hæst í júlí í fyrra, í 25,5%, en nú sé hún 2,7%.

„Það hefur klárlega hægt rosalega á íbúðamarkaði og það virðist enn vera að hægja á honum.“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólíklegt að markaðurinn frjósi alveg

Í mánaðarskýrslu Hús­næðis- og mann­virkja­stofn­un­ar sem birt var í dag kemur fram að ef fjölgun íbúa verði áfram í sambærilegum takti það sem eftir er árs megi búast við að íbúar landsins  geti orðið um fjögur hundruð þúsund í lok árs. Hildur Margrét segir þetta valda því að ólíklegt sé að fasteignamarkaður frjósi alveg. 

„Eftirspurnin hefur minnkað á fasteignamarkaði en landsmönnum hefur fjölgað svo svakalega hratt á síðustu mánuðum. Það auðvitað heldur uppi þörf á íbúðum. Því er ólíklegt að fasteignamarkaður frjósi alveg því að það er mikil þörf á húsnæði. Allt þetta fólk sem er að flytja hingað þarf að búa einhvers staðar, hvort sem það er í eigin íbúðum eða leiguíbúðum.“

Raunverð enn hátt

Eins og áður segir hefur raunverð íbúða lækkað. Hildur bendir þó á að raunverð sé enn mjög hátt.

„Raunverð hefur lækkað á allra síðustu mánuðum vegna þess að verðbólgan hefur verið meiri en hækkun fasteignaverðs. Raunverðið er þó enn 25% hærra en það var fyrir faraldur.“

Verðbólgan rýrir höfuðstólinn

Í skýrslu Hús­næðis- og mann­virkja­stofn­un­ar kemur fram að hlutfall veðsetningar íbúðalána af fasteignum heimila hafi verið 27% um síðustu áramót. Það hafi ekki verið lægra á því tímabili sem tölur Hagstofunnar ná til, eða frá 1997. Hildur segir þetta aðallega skýrast af verðbólgu.

„Þetta er vegna þess að fasteignaverð hefur hækkað mjög mikið á síðustu árum. Þegar vextir voru lágir tóku langflestir óverðtryggð lán og verðbólgan hefur rýrt höfuðstól slíkra lána.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK