Ekki lækkað meira síðan 2010

Vísitala íbúðarverðs lækkar.
Vísitala íbúðarverðs lækkar. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Vísitala íbúðaverðs hefur ekki lækkað jafnmikið milli mánaða síðan í desember 2010, en hún lækkaði um 1,1% milli mánaða í júní samkvæmt tölum Hús­næðis- og mann­virkja­stofn­un­ar. Lækkunin kemur í kjölfar þess að vísitalan hækkaði á milli mánaða síðustu fjóra mánuði í röð.

Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans.

Árshækkun vísitölunnar 2,7%

Í Hagsjánni kemur fram að vísitalan hafi hækkað um 2,7% á síðasta árinu og árshækkunin dregist þónokkuð saman á milli mánaða, en hún var 6,1% í maí.

„Lægri árshækkun milli mánaða nú er tilkomin bæði vegna þess að vísitalan lækkaði milli mánaða og vegna þess að mælingin frá því í júní 2022 datt út úr ársbreytingunni, en vísitalan hækkaði um 2,2% milli mánaða þá. Árshækkunin fór hæst í 25,5% í júlí í fyrra en vísitalan hefur lækkað nokkuð jafnt síðan. Árshækkun vísitölunnar hefur ekki mælst jafn lítil síðan í janúar 2020, rétt áður en heimsfaraldurinn skall á og Seðlabankinn brást við með því að lækka vexti,“ segir í Hagsjánni.

Vaxtahækkanir bíta

Þá kemur fram að á mánudaginn hafi Seðlabankinn birt tölur um veltu greiðslukorta í júní. Þær sýni að greiðslukortavelta hafi dregist saman.

„Greiðslukortavelta heimilanna dróst saman um 7,5% milli ára, á föstu verðlagi. Innanlands dróst kortavelta íslenskra heimila saman um 8,4% og erlendis dróst hún saman um 4,1%. Þetta er þriðja mánuðinn í röð sem greiðslukortavelta heimila dregst saman á milli ára. Alls dróst kortavelta heimilanna saman um 6,7% á 2. ársfjórðungi.

Samdráttur í kortaveltu og lækkun íbúðaverðs eru hvort tveggja merki um að vaxtahækkanir séu farnar að slá á eftirspurn í hagkerfinu. Á fasteignamarkaði spila einnig inn í þrengri lántökuskilyrði. Telja má víst að peningastefnunefnd líti til þessarar þróunar og er líklegt að hún telji sig ekki þurfa að halda vöxtum jafn háum til að ná verðbólgu niður í markmið og ella. Næsta vaxtaákvörðun verður birt miðvikudaginn 23. ágúst.“

Eiga von á aðeins minni verðbólgu

Þá gerir bankinn ráð fyrir aðeins minni verðbólgu en hann hafði áður spáð. Verðbólguspá bankans sem var birt 7. júlí gerði ráð fyrir að vísitala neysluverðs myndi hækka um 0,24% milli mánaða og að verðbólgan myndi lækka úr 8,9% í 7,9%.

„Í þeirri spá gerðum við ráð fyrir að markaðsverð húsnæðis á landinu öllu myndi hækka um 0,3% milli mánaða, sem verður að teljast ólíklegt í ljósi þessarar mælingar á vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu. Þó þarf að hafa í huga að einhverju getur munað á markaðsverði húsnæðis á landinu sem Hagstofan notar við útreikning á vísitölu neysluverðs og vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu. Við lækkum verðbólguspá okkar lítillega og gerum nú ráð fyrir að vísitala neysluverðs hækki um 0,09% milli mánaða í júlí og ársverðbólgan lækki í 7,7%.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK