Alvotech gerir ráð fyrir stórum samningum

Starfsmenn Alvotech að störfum.
Starfsmenn Alvotech að störfum.

Gera má ráð fyrir því að Alvotech tilkynni á næstu vikum um samkomulag við stóra markaðsaðila á bandaríska lyfjamarkaðinum um sölu á lyfinu Simlandi, sem er líftæknilyfjahliðstæða við frumlyfið Humira, sem notað er við gigt og öðrum sjálfsofnæmis- og bólgusjúkdómum.

Þetta kom fram í kynningu félagsins í gær en lyfið hlaut sem kunnugt er samþykki Lyfja- og matvælaeftirlits Bandaríkjanna (FDA) í lok febrúar sl.

Anil Okay, framkvæmdastjóri viðskipta hjá Alvotech, segir í samtali við Morgunblaðið að félagið sé komið langt í viðræðum við stóra markaðsaðila.

„Það má í raun segja að viðræður séu á lokastigi og við getum kynnt niðurstöður þeirra fljótlega,“ segir Okay.

Anil Okay, framkvæmdastjóri viðskipta hjá Alvotech.
Anil Okay, framkvæmdastjóri viðskipta hjá Alvotech.

Með markaðsaðilum er átt við innkaupsaðila sem semja um kaup á lyfjum frá lyfjafyrirtækjum fyrir hönd greiðenda, þ.e. heilbrigðistryggingafélaga. Teva, samstarfsaðili Alvotech í Bandaríkjunum, birti í fyrradag heildsöluverð Simlandi í opinberum verðskrárkerfum í Bandaríkjunum, en það er ein forsenda þess að innkaupsaðilar geti gengið til samninga um kaup á lyfinu og það sé tekið inn á skrá yfir lyf sem njóta greiðsluþátttöku heilbrigðistrygginga.

Vilja klára viðræður og samninga fyrir 1. júlí

„Við erum búnir að framleiða fyrstu skammtana, það er búið að skrá lyfið á viðeigandi gáttum og heildsöluverð hefur verið birt í sölukerfum vestanhafs – allt eru þetta liðir í því að koma lyfinu í sölu á Bandaríkjamarkaði. Sum þessara skrefa var ekki hægt að taka fyrr en samþykki FDA lá fyrir, svo sem birting heildsöluverðsins,“ segir Okay.

Hann minnir á að aðeins sé liðinn rétt rúmur mánuður frá því að FDA samþykkti Simlandi vestanhafs.

„Það er skammur tími til að koma lyfinu í sölu og dreifingu. Viðræður við innkaupsaðila munu halda áfram næstu mánuði og það má búast við því að hægt verði að tilkynna um árangurinn af þeim viðræðum í áföngum á því tímabili. Þetta eru stórir aðilar og það verður eftir þessu tekið,“ segir Okay og bætir því við að tryggingarfélög og innkaupsaðilar uppfæri lista yfir lyf sem njóta greiðsluþátttöku  í byrjun hvers ársfjórðungs. Því sé stefnt að því að klára viðræður og samninga fyrir 1. júlí nk.

Væntingar um að viðræður skili góðri niðurstöðu

„Allt þetta ferli er í samræmi við áætlanir okkar, það hafa ekki orðið neinar breytingar þar á,“ segir Okay þegar hann er spurður um bjartsýna tekjuáætlun félagsins sem birt var á fjárfestafundi þann 21. mars sl. Þar kom fram að Alvotech gerir ráð fyrir því að heildartekjur félagsins verði á þessu ári á bilinu 300-400 milljónir bandaríkjadala. Ef spá félagsins rætist munu tekjur Alvotech fjórfaldast á milli ára, en tekjur félagsins námu í fyrra rúmum 93 milljónum dala sem var 10% aukning frá árinu áður.

„Við byggðum þá tekjuáætlun á þeim viðræðum við kaupendur í Bandaríkjunum sem voru þá hafnar og þeim væntingum sem við höfum um niðurstöður þeirra, en einnig sölu á hliðstæðunni við Humira og hliðstæðunni við Stelara á mörkuðum utan Bandaríkjanna. Þess utan eru áfangagreiðslur, sem eru samningsbundnar og tengjast næstu áföngum í lyfjaþróun, umtalsverður hluti af þessari tekjuáætlun,“ segir Okay.

Funda með fjárfestum

Það er ekki hjá því komist að spyrja Okay um þróun á gengi bréfa í félaginu. Gengi bréfa hefur lækkað um rúm 30% frá því að það náði hámarki undir lok febrúar, þegar tilkynnt var um samþykki FDA fyrir lyfinu Simlandi. Þegar fyrrnefnd kynning var boðuð í gær rauk gengi bréfanna upp um 8% en lækkaði nokkuð hratt aftur eftir að kynningunni var lokið. Í lok dags höfðu bréfin hækkað um 0,3% í um 1,1 milljarðs króna viðskiptum.

Spurður um það segir Okay að hann eigi erfitt með að tjá sig með nákvæmum hætti um þróun hlutabréfaverðsins, en ítrekar fyrir orð um að viðræðu um sölu á lyfinu séu í samræmi við áætlanir félagsins.

Lykilstjórnendur Alvotech – með aðstoð Barclays banka sem er einn af ráðgjöfum félagsins vestanhafs, hófu í gær fundarröð með hlutabréfafjárfestum í Bandaríkjunum. Þeir fundir munu halda áfram í dag. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins stendur ekki til að auka hlutafé félagsins frekar heldur fer fundarröðin fram til að kynna áætlanir félagsins ítarlega fyrir fjárfestum og öðrum hagaðilum, með það að markmiði að breikka hluthafahópinn og auka þar með seljanleika bréfa sem eru markaðnum í Bandaríkjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK