c

Pistlar:

13. október 2013 kl. 14:18

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Tækifæri í verslun

„Verslun er verðmæt atvinnugrein og í vel rekinni verslun er fólgin mikil verðmætasköpun. Heil stórveldi eins og Feneyjar og Flórens fyrir bráðum þúsund árum voru byggð eingöngu á verslun. Engin framleiðsla en gífurleg verðmætasköpun. Og versluninni fylgdu tengsl við aðra heimshluta og tengslunum fylgdi mikil menningarleg gerjun, listir og menning blómstruðu. Endurreisnin hófst í Flórens og Feneyjum, í skjóli blómlegra viðskipta."

Þannig hóf Sigurður Gísli Pálmason ræðu sína í  25 ára afmælisveislu Kringlunnar sem haldin var fyrir rúmu ári. Pistlaskrifari fékk þann heiður að halda utan um sérstakt afmælisrit sem sett saman var við það tilefni um Kringluna, það hús sem flestir Íslendingar hafa heimsótt. En bæði Kringlan og verslun almennt liggja oft undir ámæli. Kringlan fyrir að vera eins og hún er og verslun fyrir að skapa ekki beinlínis neitt í skilningi vinnuverðgildiskenninga. Þó er staðreyndin sú að verslun hefur líklega gert hvað flestar íslenskar fjölskyldur efnaðar enda oftar en ekki um að ræða lítil fjölskyldufyrirtæki í upphafi. Einstaka fyrirtæki vaxa síðan fram úr því en það er önnur saga.

Stutt reynsla af frjálsri verslun

Sem land fremur einfaldra atvinnuhátta hefur Íslendingum verið tamt að líta á verslun á heldur einfaldan hátt. Sigurður Gísli benti á í ræðu sinni að verslun hefur í hugum Íslendinga löngum haft á sér neikvæðan blæ. Taldi hann að það kæmi til af því að á víkingatímum var ekki alltaf auðvelt að sjá mun á verslun og vopnuðu ráni. Á einokunartímum var verslun tengd kúgun nýlenduherranna og þegar verslun losnaði úr viðjum erlendra hafta var hún á ný hneppt í fjötra helmingaskiptakerfisins víðfræga. Þess vegna er verslun enn tengd kúgun í hugum margra og reynslan af frjálsri verslun er stutt, sérstaklega hér á landi, en að mati Sigurðar er frjáls verslun einmitt sú atvinnugrein sem er örlátust á tækifæri til handa þeim sem byrja með tvær hendur tómar.

Fjölsóttasta hús landsins

Fyrirtæki föður Sigurðar, Hagkaup, er einmitt dæmi um slíkt. Þegar hugmyndin um yfirbyggða verslunarmiðstöð kom fram snemma á níunda áratugnum var allt fremur mótdrægt í byrjun, skipulagsyfirvöld voru tortryggin, stjórnmálamenn fundu þessu ekki stað í helmingakerfinu, verslunarstórveldin gömlu og heildsalarnir sáu engan kost á málinu. Margir urðu til að segja að þetta gengi aldrei, ýmist að fólk myndi ekki hafa áhuga eða umferðin yrði til stórkostlegra trafala. Því má segja að Kringlunni hafi verið fylgt úr hlaði með talsverðri vantrú á að hún myndi nokkurn tíman standa sig.  Reyndin hefur orðið önnur. Fjöldi heimsókna í Kringluna frá opnun taldi 123.778.353 þegar Kringlan hélt 25 ára afmælisveislu sína laugardaginn 8. september 2012, fyrir rúmu ári síðan. Miðað við þá tölu lætur nærri að hver einasti núlifandi Íslendingur hafi komið í Kringluna 388 sinnum frá opnun. Til gamans má geta þess að þegar Kringlan fagnaði 20 ára afmæli sínu var fjöldi heimsókna rösklega 98 milljónir og lét þá nærri að hver einasti Íslendingur hefði komið í Kringluna 327 sinnum frá því hún var fyrst opnuð. Samanburður á tölunum 2012 og 2007 sýnir að tíðni heimsókna er enn að aukast. Gera má ráð fyrir að nú fari að styttast í að 130 milljónasti gesturinn leggi leið sína í Kringluna.

kringlan300px

Neytendamarkaður á Íslandi hefur átt undir högg að sækja undanfarið og kaupmáttur heldur dregist saman. Um leið dregst úrval í verslunum saman og framboð verður fátæklegra. Vaxandi fjöldi ferðamanna hefur fært okkur Íslendingum nýjar áskoranir í verslun og fráleitt er að segja að við höfum nýtt okkur þær, utan einstaka framleiðendur útivistarfatnaðar og minjagripa. Er þó svo að verslun er nauðsynleg þjónusta við ferðamenn sem og aðra. Framundan eru áhugaverð tækifæri á því sviði, sem mörg hver tengjast staðsetningu landsins. Því skyldum við ekki geta færst í spor ýmissa verslunarvelda fortíðarinnar sem Sigurður Gísli nefndi hér í upphafsorðum sínum?