c

Pistlar:

21. janúar 2014 kl. 20:15

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Landbúnaður á tímamótum

Undanfarin ár höfum við séð að eftirspurn eftir landbúnaðarafurðum hér á landi hefur verið að  aukast um leið og hún hefur breyst. Við höfum verið upptekin af því að neyslubreyting hafi aukið þörfina fyrir smjör og rjóma tímabundið en við sjáum einnig að eftirspurn eftir öðrum vörum er að aukast. Vitað er að innlendir framleiðendur hafa átt erfitt með að sinna eftirspurn eftir nautakjöti og kjötinnflutningur hefur verið að aukast. Fjölgun landsmanna en þó ekki síst gríðarleg fjölgun ferðamanna á þarna stærstan hlut að máli. Ef ferðamönnum heldur áfram að fjölga eins og undanfarin misseri er ljóst að nýrra leiða verður að leita við að tryggja matvælaframboð hér á landi. Þá kemur aðeins tvennt til; auka innlenda framleiðslu eða hefja innflutning matvæla í stærri stíl en við höfum áður þekkt. Að öllum líkindum er farsælast að fara blandaða leið, auka framleiðslu og innflutning. En þá vakna vangaveltur um hvort við séum tilbúin í slíkar breytingar?

Lengi vel var talsvert flutt út af íslenskum landbúnaðarvörum og var það lengst af bundið við suðafjárafurðir; vaðmál, ull, gærur og kjöt. Vel má rifja upp að einhver ábatasamasti hluti þess var útflutningur fjár á fæti í byrjun 20. aldarinnar. Sagt er að margir bændur hafi þá í fyrsta sinn séð peninga og er til þess tekið að húnverskir bændur efnuðust margir hverjir sem stuðlaði meðal annars að því að þeir gátu komið dætrum sínum til mennta eins og rakið er í ævisögu Bjargar C. Þorláksson sem Sigríður Dúna Kristmundsdóttir skráði. Allt var það þó takmarkað og staðbundið. Í yfirlitssögu sinni, Ísland á 20. öld, segir Helgi Skúli Kjartansson að af öðrum búgreinum hafi það verið hrossarækt sem helst hafi mátt kalla útflutningsgrein. Á tímabili voru íslensku hestarnir vinsælir til námuvinnslu og svo sóttu Danir í þá til margvíslegra nota. Af þessu hlaust nokkur búbót.

landbunadur

Framfaratrú

Framfaratrú hélt innreið sína í landið á þessum tíma og almennt ríkti bjartsýni á framtíð íslensks landbúnaðar um leið og þjóðin var að fá stjórn landsins í eigin hendur.  Þúfnabanarnir, sem Sigurður Sigurðarson búnaðarmálastjóri, hafði frumkvæði að því að flytja inn og kynna urðu mörgum hvatning. Íslendingar sáu nú framan í tækniöldina og hve miklu var hægt að afkasta með stórvirkum vélum þó varla sé hægt að tala um að vélvæðing sveitanna hafi hafist fyrr en upp úr 1940.  Ásýnd sveitanna tók að breytast og stórhugurinn smitaðist út í þjóðfélagið. Almennur vilji var til þess að efla landbúnaðinn sem hafði átt undir högg að sækja gagnvart sjávarútvegi eftir að vélbátaútgerð hófst hér á landi í lok 19. aldar. Nú töldu sumir að komið væri að landbúnaðinum. Hvergi skyldi til sparað. Ræktunarsjóður var settur á stofn 1923 og styrkir til ræktunar stórauknir. Fjár var aflað með álögum á útfluttan fisk. Var litið á þetta sem styrk sjávarútvegsins til landbúnaðarins, nauðsynlegan til að halda jafnvægi í uppbyggingu atvinnuveganna segir Helgi Skúli í riti sínu. Sérstök lög um byggingar og landnámssjóð voru síðan samþykkt 1928.

Stórhugurinn var mikill. Á árunum 1921 til 1927 fjármagnaði ríkissjóður hinar umfangsmiklu áveituframkvæmdir sem ráðist var í í Flóanum. Menn fóru að tala eins og Ísland væri heppilegt til landbúnaðar. Þorvaldur Thoroddsen náttúrufræðingur sagði að óvíða í heiminum finnist eins frjósamur jarðvegur og í íslensku mýrunum eins og Sigurgeir Guðjónsson benti á í athyglisverðri grein í Lesbók Morgunblaðsins 1999. (Greinin fjallar reyndar um miðstýringaráform kommúnista í landbúnaði og er hin forvitnilegasta). Framræksla mýranna hófust um þetta leyti og gröfurnar átu sig í gegnum landið fyrir tilverknað ríkulegra ríkisstyrkja. Hernaðurinn gegn landinu, eins og nóbelsskáldið skrifaði síðar, jók mönnum bjartsýni um að úr íslenskum jarðvegi mæti fá gnógt matar, ekki bara fyrir Íslendinga heldur einnig hungraðan heim.

Útflutnings og framleiðslustefna í ógöngum

Allt frá stofnun rjómabúanna um aldamótin 1900 var það skoðun margra að stór hluti íslenskra landbúnaðarafurða ætti erindi á erlenda markaði. Ekki er víst að það hafi verið skynsamlegt en þetta viðhorf átti sér öfluga talsmenn alla síðustu öldina. Á þriðja áratug dró síðan úr þessum væntingum um útflutning, meðal annars í kjölfar þess að Norðmenn hækkuðu innflutningstolla á íslensku saltkjöti. Í fyrstu var reynt að svara því með útflutningi á fersku kjöti til Bretlands og styrkti meðal annars ríkissjóður Eimskip til að kaupa kæliskipið Brúarfoss til flutninganna. Óhætt er að segja að talsmenn landbúnaðarins hafi rekið öflugan áróður og hagsmunagæslu fyrir útflutning sem hélst í hendur við jafna og stöðuga framleiðsluaukningu fram á áttunda áratug síðustu aldar. Öflugasti hvatinn í framleiðsluaukningunni var þó svokölluð 10% regla, sem byggðist á þeirri meginreglu að bændur fengu útflutningsbætur á 10% heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar.

Allt til ársins 1979 bjó íslenskur landbúnaður við óhefta framleiðslumöguleika. Hver og einn mátti framleiða og selja eins og hann vildi og fékk greitt fyrir. Pistlaskrifari var í sveit hluta af þessu tímabili og man vel þá framfaratrú sem þá ríkti en nýjar og aflmeiri vélar léttu störfin og bættu framleiðnina. Þessi stefna lenti að endingu í ógöngum, meðal annars vegna útflutningsbóta á kindakjöt sem var farið að kosta skattgreiðendur umtalsverða fjármuni. Einu rökin voru þau að það væri illskárra að flytja það út en að urða það hér heima. Á þeim tíma var sauðfé á landinu vel yfir eina milljón, helmingi fleiri en í dag. 

Séreignastefna og auknar fjárfestingar

En um leið og menn tóku að huga að útflutningi í byrjun 19. aldar var ljóst að innanlandsmarkaður var að taka verulega við sér, með fjölgun fólks í bæjum og hraðri uppbyggingu höfuðborgarsvæðisins. Fólk hafði nú efni á að kaupa landbúnaðarafurðir, að hluta til vegna aukins kaupmáttar sem sjávarútvegurinn skapaði. Séreignastefna og breytt eignarhald jók fjárfestingu til sveita og þá um leið framleiðslu. Í því sambandi er rétt að benda á aukna mjólkurvinnslu sem leiddi til stofnunar Mjólkurbús KEA árið 1927 og Mjólkurbús Flóamanna árið 1929. Mjólkurbúin urðu öflugar framleiðslueiningar og skiptu miklu máli fyrir atvinnuuppbyggingu þar sem þau störfuðu. Komandi frá Selfossi þekkir sá er þetta skrifar vel hvaða áhrif þetta hafði á bæjarbraginn, kannski ekki síst vegna þess að hingað komu allmargir danskir mjólkurfræðingar sem margir hverjir settust hér að og auðguðu mannlífið á sinn hátt. Á áttunda og níunda áratugnum var hins vegar svo komið að offramleiðsla var í kerfinu sem dró smám saman úr pólitískum vilja við að styðja við það í óbreyttri mynd.

Festa hefur verið sköpuð um rekstur landbúnaðarins með búvörusamningum sem hafa verið framlengdir með jöfnu millibili. Nú má velta fyrir sér hvort þeir séu heppileg umgjörð utan um breytt umhverfi þar sem aukin eftirspurn og innflutningur munu taka við. Augljóslega eru áskoranirnar miklar. Í gegnum tíðina höfum við Íslendingar sveiflast á milli ólíkra sjónarmiða gagnvart landbúnaði. Eins og á við um svo margar þjóðir þá myndast stundum ástar- og haturssamband til eigin matvælaframleiðslu, við viljum afurðirnar en hötum kerfið. Vandi er hins vegar að segja til um hvað eigi að koma í staðinn.