c

Pistlar:

19. desember 2016 kl. 19:52

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Fjölmiðlasagan skráð

Blaðamennska er ekki starf, heldur skapgerðargalli var einu sinni haft í flimtingum meðal blaðamanna. Hvað sem hæft er í því er blaðamennska og starfsemi fjölmiðla mikilvægur liður í lífi þjóðarinnar og snar þáttur í atvinnu- og menningarsögu okkar. Þessu öllu er gerð ágæt skil í bókinni Í hörðum slag, Íslenskir blaðamenn II sem Blaðamannafélag Íslands hefur nú gefið út. Í bókinni greina 15 íslenskir blaðamenn frá sjónarmiðum sínum og reynslu af blaðamennsku á seinni hluta 20. aldar og upphafi þessarar aldar.fors

Þeir  sem rætt er við í bókinni eru vel kunnir í fjölmiðlaheiminum og jafnvel út fyrir hann. Þeir eru: Björn Vignir Sigurpálsson, Magnús Finnsson, Steinar J. Lúðvíksson, Kári  Jónasson, Ingvi Hrafn Jónsson, Freysteinn Jóhannsson, Árni Johnsen,  Jóhanna Kristjónsdóttir, Styrmir Gunnarsson, Kjartan L. Pálsson, Sigtryggur Sigtryggsson, Gunnar V.  Andrésson, Jóhannes Reykdal, Úlfar Þormóðsson, og Sigurdór  Sigurdórsson. Allt þetta fólk er fætt á árunum 1938 til 1950 og er því að rekja ákveðið skeið í íslenskri fjölmiðlun. Kynjaskiptingin ætti ekki að koma á óvart, framan af var fjölmiðlun karlastarf en óhætt er að segja að það sé breytt núna. Þetta er önnur bókin sem BÍ gefur út með þessum hætti en farin er sú leið að ræða við blaðamenn í þeirri röð sem númer þeirra á blaðamannaskírteinum segir til um. Sem gefur að skilja er hlutur Morgunblaðsmanna stór í þessu riti en þar hefur lengst af verið stærsta ritstjórnin og starfsaldur hæstur.  

Þekktir sögumenn

Það er Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður og rithöfundur sem skrásetur og gerir það af lipurð hins reynda blaðamanns. Frásögnin er oft fjörleg og fræðandi, skreytt mörgum frásögnum úr blaðamennskunni enda margir frægir sögumenn þarna á ferðinni. Í gegnum samtölin er síðan skyggnst baksviðs í frétta- og þjóðmálaumræðu, oft á umbrotatímum Íslandssögunnar. Bókin er eins og áður segir  lipurlega skrifuð, eins og blaðamannaviðtöl gjarnan eru, þar sem stutt æviágrip af viðkomandi birtist um leið og sýn þessara gömlu blaða- og fréttamanna á blaðamennsku og starfsumhverfið er dregin fram. Sá er þetta ritar hefur starfað með nokkrum þeirra sem hér eru tilgreindir og forvitnilegt að lesa um uppvaxtarár þeirra sem ekki voru alltaf auðveld. Við erum fljót að gleyma því hve mikið hefur breyst í þessu landi á stuttum tíma. Forvitnilegt er að fá frásagnir af brauðstriti blaðamanna en oft var vinnuharkan mikil og augljóslega urðu menn að leggja mikið á sig til að koma sér þaki yfir höfuði. Hugsanlega hafa verið fleiri tækifæri á árum áður að stunda aukastörf inni á fjölmiðlunum, svo sem við margvíslegar aukaútgáfur.  

Fróðlegt er að lesa um þær breytingar sem hafa orðið á starfsumhverfi blaðamanna, bæði er varða tækni og rekstrarumhverfi. Einnig hafa orðið miklar breytingar í fréttavinnslunni sjálfri og sumir hafa eðlilega áhyggjur af þróun mála eins og sést vel af þessum orðum Kára Jónassonar, fyrrverandi fréttastjóra RÚV og ritstjóra Fréttablaðsins: „Mér finnst áberandi í dag hvernig sumir fjölmiðlar vaða fram með sögur sem sagðar eru einhliða. Þeir keyra á aðra hliðina og segja svo að ekki hafi náðst í aðra aðila. Það er hættulegt að gera þetta, það þarf að fá fram sem flest sjónarhorn á sama tíma. Ekki fá eitt í hádegi og annað að kvöldi.”

Skrásetning sögunnar

Ef maður reynir að velta fyrir sér stærstu fréttamálum síðustu 50 til 60 árin eftir frásögnum þeim sem hér birtast þá er augljóslega Vestmannaeyjagosið sigurvegarinn. En önnur stór fréttamál komu upp og sum sér ekki enn fyrir endan á eins og á við um Guðmundar- og Geirfinnsmálið. Sigtryggur Sigtryggsson, fyrrverandi fréttastjóri Morgunblaðsins, bendir á athyglisvert hlutverk fjölmiðla við skráningu sögunnar. Hann segir: „Það sýnir best hve mikilvægt það er að hafa öfluga fjölmiðla að eiga nú frásagnir, þar sem allt er rakið sem máli skiptir. Í Sakadómi var ég til dæmis eini blaðamaðurinn sem hlustaði á varnarræðu Sævars Ciesielskis. Hann flutti magnaða ræðu sem ég skrifaði upp jafnharðan og birt var í Morgunblaðinu daginn eftir. Þessi ræða hefði týnst hefði ég ekki skrifað hana upp og hún birst.”  

Áhugaverðar myndir

Viðtölunum fylgja nýjar portrettmyndir Kristins Ingvarssonar af viðmælendum og er fengur að þeim. Bókin hefur einnig að geyma sérstakan  ljósmyndakafla sem byggir á fréttaljósmyndasafni Gunnars V.  Andréssonar sem hefur skráð með myndrænum hætti sögu þjóðarinnar í 50  ár. Gunnar er án efa einn leiknasti fréttaljósmyndari sem við höfum átt. Bókinni lýkur á fræðilegri samantekt um fagvæðingu blaðamannastéttarinnar, sem Birgir Guðmundsson dósent við Háskólann á Akureyri skrifar, en hann er jafnframt ritstjóri bókarinnar.

Gunnar V. Andrésson bendir á þá öfugþróun sem er að verða í samskiptum fjölmiðla og opinberra aðila og lýtur sérstaklega að myndatökum. Sérstaka athygli vekur lýsing á samskiptum í Alþingishúsinu. „Nú er maður nánast vaktaður í þinghúsinu; má bara mynda inn í gáttina sem sjónvarpsmyndavélarnar eru í. Ungir ljósmyndarar nútímans halda kannski að þetta eigi að vera svona en mér, sem hef verið svona lengi að störfum, finnst þetta ömurlegt. Ég sakna hinna mannlegu tengsla sem áður voru. Við bjuggum til myndasíður úr ýmsu sem var að gerast og þannig færðum við þingstörfin nær almenningi.” Gunnar bendir reyndar sjálfur á að þarna geti ráðið öryggissjónarmið og vissulega er það rétt. Því miður virðist tilhneiging til að setja fram stöðugt meiri öryggiskröfur, meðal annars í kjölfar bankahrunsins. Ástæða er til að óttast að þetta ástand sé komið til að vera.

Bókin kemur út í tilefni afmælis Blaðamannafélagsins sem verður 120 ára á næsta ári. Það er Blaðamannafélagið sem gefur út bókina í samvinnu við Sögur útgáfu og Háskólann á Akureyri. Hér er um að ræða smekklegan prentgrip og lýsir miklum metnaði hjá Blaðamannafélaginu sem býr hér til einstaka heimild um starf íslenskra blaðamanna.


Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.