Pistlar:

17. maí 2017 kl. 21:56

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Asíuveldin stefna á rafmagnsbíla

Orkuskipti bílaiðnaðarins gætu gengið hraðar fyrir sig en menn sjá fyrir í dag. Nákvæmlega þó hvernig þróunin verður getur verið erfiðara að segja til um. Freistandi er þó að halda að sjálfkeyrandi rafmagnsbílar verði stór hluti af lausninni. Ekkert fyrirtæki ver nú meiri fjármunum í rannsóknir og þróun en þýski bílarisinn Volkswagen en fyrirtækið varði 13,2 milljörðum Bandaríkjadala í málaflokkinn á síðasta ári. Volkswagen stefnir nú að því að selja eina milljón rafmagnsbíla árið 2025.electric-car-adobe-stock

Indverjar setja markið hátt

Næst fjölmennasta þjóð heims, Indverjar, setja markið jafnvel enn hærra en samgöngur standa undir 5,5% af landsframleiðslu. Indversk stjórnvöld stefna að því að allir bílar landsins verði rafmagnsbílar árið 2030 en stuðningur við rafbílavæðingu þar hófst árið 2010. Ljóst er að þeir verða að grípa til róttækra aðgerða enda mengun gríðarlega mikil á Indlandi. Loftmengun ógnar nú heilsu fólks og kemur niður á efnahag landsins en talið er að allt að 2,4 milljónir manna deyi af völdum loftmengunar á hverju ári og að landsframleiðsla skerðist um allt að 3% vegna hennar. Piyush Goyal orkumálaráðherra hefur látið hafa eftir sér að ekki verði einn einasti bensín- eða dísilbíll seldur í landinu árið 2030. Ríkið hyggst niðurgreiða rafbílaiðnaðinn verulega næstu tvö til þrjú árin. Stjórnvöld telja þó að markaðurinn muni stýrast af eftirspurn fremur en niðurgreiðslum til langs tíma litið. Unnið er samkvæmt tveimur áætlunum, National Electric Mobility Mission Plan (NEMMP) og FAME (Faster Adoption and Manufacturing of Electric Vehicles) en þær miða við að þegar árið 2020 verði 6 til 7 milljónir rafmagnsbíla komnir í notkun.  

Indland er nú þegar að fjárfesta í innviðum til þess að auðvelda hleðslu rafmagnsbíla. Í dag eru þó ekki nema 222 hleðslustöðvar í landinu en þeim hefur fjölgað um ríflega 30 á einu ári. Stefnt er að verulegri fjölgun þeirra. Í borginni Bengaluru er nú komin sérstök leigubílastöð sem eingöngu notast við rafmagnsbíla. En það eru einnig öryggismál sem gætu rekið á eftir þróuninni en nú deyja um 400 manns á dag í umferðaslysum á Indlandi.china_evlicenseplate480x320

Beijing skiptir yfir í rafmagnsleigubíla

Í höfuðborg fjölmennasta ríkis heims, Beijing, er nú unnið að útskiptingu flota 70 þúsund leigubíla fyrir rafmagnsbíla. Kostnaður við þetta er talin nema um 1,3 milljarði Bandaríkjadala. Talið er að leigubíll sem gengur fyrir bensíni eða rafmagni kosti um 10.000 dali en rafmagnsbíll sé helmingi dýrari. Það tekur í það minnsta einn áratug áður en bílar sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti eru komnir úr umferð. Helsta vandamálið sem yfirvöld í Beijing glíma við er að það er ekki nóg af hleðslustöðvum í borginni fyrir þennan nýja rafmagnsbílaflota. Þau hundruð rafmagnsbíla sem nú er að finna í borginni þurfa að bíða í löngum röðum eftir hleðslu. En loftmengun í Beijing rekur á eftir breytingum en yfirvöld senda út viðvaranir reglulega þegar loftið er svo mengað að það ógnar heilsu borgarbúa. Reynt hefur verið að reka á eftir skiptum yfir í mengunarfrírri bíla í Beijing og fleiri kínverskum borgum. Vonir standa til þess að rafmagnbílar muni hjálpa verulega við að draga úr mengun en stjórnvöld hafa gefið út að á næsta ári eigi 8% bílaflotans að vera með búnað sem sparar jarðefnaeldsneyti.

Kínverjar eru að verða mesta bílaþjóð í heimi. Á síðasta ári seldust um 28 milljónir bíla í Kína en salan í Bandaríkjunum nam 17,5 milljón bíla og var þó met. Allir bílaframleiðendur horfa til Kína og vita sem er að það verður að bjóða upp á nútímalegustu lausnirnar varðandi eldsneyti og búnað.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.

Sigurður Már Jónsson

Sigurður Már Jónsson

Höfundur er blaðamaður en starfar í dag sem upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar.

Meira