c

Pistlar:

22. ágúst 2017 kl. 13:26

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Samgöngur á leiðinni vestur

Þegar Árni Þórarinsson tók við Mikilholtsprestakalli í Hnappadalssýslu árið 1886 var hann viku að komast á áfangastað - leið sem við nútímamenn værum sjálfsagt ekki nema um einn og hálfan tíma að skjótast. Í ævisögu sinni, sem Þórbergur Þórðarson rithöfundur skráði svo eftirminnilega, segir Árni frá ferðalagi sínu. Hann ákvað að taka sér ferð með póstgufuskipinu Thyru úr Reykjavíkurhöfn en með henni var ferðinni heitið vestur í Stykkishólm og síðan hugðist hann fara á hesti suður yfir Snæfellsfjallgarð. Árni taldi að þannig væri hentugast að ferðast í prestakallið. Vanalega var 12 tíma ferðalag í Stykkishólm en atvik höguðu því þannig að hann var viku á leiðinni. Það var í takt við þá tíma. Árið 1886 var eitt erfiðleikaárið af mörgum á Íslandi. Vetur var harður og óvenjuleg snjóþyngsli víða. Vorið ætlaði aldrei að koma, enda hafís við land. Sláttur byrjaði seint og heyskapur var erfiður. Aflabrögð víðast rýr. Þá sem áður var erfitt að búa á Íslandi og ekki voru samgöngur til að bæta það.

En þannig var samgöngum háttað á Íslandi á seinni hluta 19. aldar. Ekki var ein á brúuð eða vegir að heitið gætu. Í sögu sinni rekur Árni ágætlega hrakningar sínar á ferð um prestakallið en þeir hestar voru bestir sem dugðu vel í vötnum. Margir ferðalangurinn átti allt sitt undir hestinum. Um og upp úr aldamótunum 1900 urðu miklar breytingar, brýr komnar á stórárnar Þjórsá og Hvítá en það var þó ekki fyrr en árið 1930 sem það var komin nothæfur akvegur til Akureyrar. Hringvegurinn var ekki kláraður fyrr en árið 1974 þegar Skeiðarárbrú var opnuð.

Torfhúsin bönnuð og fyrsti bíllinn kom

Árið 1904, sama ár og bann við byggingu torfhúsa í bæjarlandi Reykjavíkur tók gildi, kom fyrsti bíllinn til landsins vegum Ditlev Thomsen, kaupmanns. Bíllinn var gamall og slæmt eintak af gerðinni Cudell og gerði ekki mikla lukku þó að hann hafi nú verið endursmíðaður á Selfossi og veki mikla lukku í dag. Síðan þá hefur verið öld bílsins á Íslandi.

Til að bílar komi að notum þarf vegi. Segja má að vegir og brýr hafi haldið þjóðinni saman og tryggt forsendur fyrir byggð hér á landi. Þó margt hafi áunnist eru einstaka staðir enn án eðlilegra samgangna. Á næsta ári verða liðin 20 ár frá því að Alþingi samþykkti vegaáætlun um uppbyggingu heilsársvegar milli Reykjavíkur og Patreksfjarðar og 18 ár frá því framkvæmdir áttu að hefjast á vegakaflanum á milli Bjarkalundar og Flókalundar. Þó svo að margt hafi verið gert frá þeim tíma er uppbygging á veginum um Gufudalssveit ekki enn hafin og jafnvel horfur á að framkvæmdir hefjist ekki fyrr en á næsta ári. teigsskógur

Mikilvægi vegarins öllum ljóst

Enginn ágreiningur er um mikilvægi þess að byggja nýjan veg um Gufudalssveit. Núverandi vegslóði er ótækur og stórhættulegur og þó hafa flutningar og umferð um hann aukist ár eftir ár. Vegastæðið blasir við og ekkert ætti að vera til að tefja. En samt er allt stopp.  Þetta virðist vera sagan endalausa, deilurnar um hvort Vestfjarðavegur um Gufudalsveit verði lagður um Teigsskóg eða ekki en segja má að lagning hans hafi verið á döfinni síðustu 20 árin eða svo eins og áður sagði. Þegar vegamálaráðherra vinstri stjórnarinnar, Ögmundur Jónasson, sagði nei strunsuðu Vestfirðingar út á mótmælafundi á Patreksfirði. Eitt fyrsta verk eftirmanns hans, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, var að skoða skóginn með eigin augum og setja vegagerð um hann aftur í ferli en hún lenti fljótlega í hindrunum sem hún kallaði stjórnsýsluflækju. Núna, fjórum árum síðar, vonast menn að senn greiðist úr flækjunni og fyrir tveimur árum hélt Vegagerðin að unnt væri að höggva á hnútinn. Ástandið eins og það er nú er ekki boðlegt og heldur einhver að vegurinn verði ekki lagður þarna að lokum? Til hvers að bíða lengur?

Á sama hátt hafa íbúar á Borg­ar­f­irði eystra um árabil kvartað réttilega und­an mal­ar­veg­inum sem ligg­ur yfir Vatns­skarð og að firðinum. Að þeirra sögn verður veg­ur­inn gjör­sam­lega ónýt­ur, sér­stak­lega á sumr­in og í bleytu. Þar þarf líka að ráðast í framkvæmdir sem fyrst.

Í upphafi greinarinnar var vitnað til ferðalaga á tímum Árna prófasts Þórarinssonar. Í dag undrumst við þessar frásagnir. Skyldu ekki einhverjir eiga eftir að undrast þennan seinagang sem hér hefur verið rakin þegar samgöngusagan verður skoðuð síðar?

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.