Nútímaútgáfa Lada Sport er Dacia Duster, jepplingur sem smíðaður er á einföldum grunni en með hagkvæmni að sjónarmiði og með gott fjórhjóladrif. Renault-Dacia frumsýndi fyrstu andlitslyftingu Duster-jepplingsins á bílasýningunni í Frankfurt í fyrrahaust.
Bíllinn kom fyrst á markað árið 2010 og hefur nú fengið uppfærslu á útliti og búnaði þótt grunnsmíðin haldi sér. Breytingarnar eru mest sjáanlegar á framljósum og grilli, ásamt afturljósum. Bíllinn er nú kominn hingað til lands og þótt stutt sé síðan við reynsluókum gamla bílnum þótti rétt að grípa í bílinn og sjá hvar hann hefði bætt sig.
Það er strax augljóst að um nokkuð betur búinn bíl er að ræða í nýja bílnum. Má þar nefna að í bílinn er kominn blátannarbúnaður fyrir síma, aðgerðarstýri, hraðastilli og loftkælingu svo eitthvað sé nefnt. Einnig er efnisval í innréttingu örlítið betra þótt það sé svo sem ekkert til að hrópa húrra fyrir. Augljóst er samt að hann er orðinn efnismeiri og betur hljóðeinangraður. Eftir sem áður er flautan þó á kjánalegum stað, á enda stefnuljósastangarinnar, svo að hún er ekki auðfinnanleg fyrir þann sem sest upp í bílinn í fyrsta skiptið. Fyrir utan frekar stutta setu í sætunum eru þau nokkuð þægileg og mjúk þannig að maður þreytist síður á löngum ferðum. Útvarpið er frekar einfalt í notkun en þó ætti frekar að nota snúningstakkann fyrir hljóðstyrk en stöðvarval eins og í þessum. Þegar skoðað er aftur í bílinn sést þó að frágangur gæti verið betri á efnum í farangursrými sem er heldur fátæklegt.
Það sem vekur athygli manns strax þegar byrjað er að aka bílnum er hversu óeðlilega lág drifhlutföllin eru í honum. Þótt það geti komið sér vel í torfærum er fyrsti gírinn svo lágur að hann er nánast óþarfur í innanbæjarakstri og undirritaður vandi sig fljótt á að taka einfaldlega af stað í öðrum gír. Það minnti mann á gamla Ferguson í sveitinni að mjög auðvelt var að taka af stað í öðrum og skipta svo beint í fjórða. Lýsir það kannski best því hversu lággíraður bíllinn er, enda er hámarkshraðinn ekki nema 168 km á klst. Í þjóðvegaakstri í sjötta gír er bíllinn í 2.000 snúningum á 90 km hraða, sem er óvenjuhátt. Kosturinn við gírunina er eins og áður sagði akstur í torfærum. Gafst tækifæri á að reyna hann bæði í snjó og sandi og reyndist hann vel þar. Munaði um að geta læst drifinu milli ása í gljúpum sandinum. Einnig eru hjólin utarlega svo að að- og fráfallshorn bílsins er með besta móti og 205 mm veghæð segir sitt líka.
Fjöðrunin er McPherson með jafnvægisstöng að framan og fjölliða að aftan og hentar honum vel í torfærum. Hún er mjúk og tekur vel við holum og öðrum ójöfnum en ekki nógu stíf til að halda honum stöðugum í kröppum beygjum á malbiki. Þó er bíllinn ekki eins undirstýrður og maður hefði búist við og munar þar líklega um léttleika bílsins og þá staðreynd að vélin er lítil og létt sem minnkar líkur á skriði að framan. 1,5 lítra dísilvélin er nokkuð togmikil miðað við stærð en aðeins á stuttu snúningsbili, milli 2-3.000 snúningum svo að skipta þarf ört um gír í upptakinu. Þar kemur líka helsti löstur bílsins í ljós sem er stirður og illa samstilltur gírkassinn sem er frekar leiðinlegur í notkun.
Grunnverð Dacia Duster upp á 3.990.000 kr. er eiginlega frekar gott þegar horft er á bíla í sama stærðarflokki. Helstu keppinautar hans eru nokkrir eins og Skoda Yeti með grunnverðið 4.880.000 kr., Nissan Qashqai sem byrjar í 4.990.000 kr., nýr Suzuki S-Cross kostar 4.490.000 kr. fjórhjóladrifinn og síðan Chevrolet Trax sem kostar 4.890.000 kr. beinskiptur með díselvél. Er hann þannig hálfri milljón undir næsta keppinaut í verði og farinn að nálgast hann í búnaði líka svo að óhætt er að tala um góð kaup í Dacia Duster.