Er Airwaves í móðu?

Er Airwaves í móðu? Misstirðu af Sleaford Mods í Vodefone-höllinni? Kannski Muck, Smurjóni og Ariel Pink líka? mbl.is gerði þér þá greiða og tók saman brot úr umfjöllun tónlistarskríbenta Morgunblaðsins af öllum kvöldum hátíðarinnar.  

Miðvikudagur: Hjalti Stefán Kristjánsson

Magnús Leifur og félagar í samnefndri hljómsveit skiluðu mjög orkumiklu giggi, gripu í hljóðfæri sem ekki sjást endilega uppi á sviði á venjulegum rokktónleikum, svo sem fingrahörpu, klukkuspil og munnhörpu, og voru þrælskemmtilegir.

Mosi Musik var næst á dagskrá, enda eins gott að byrja þetta á smá poppi. Þetta er hljómsveit sem ég er viss um að ekki viti allir af og það mættu fleiri vita af henni. Samsetningin er skemmtileg, gítar, bassi, píanó, söngkona, söngvari og slagverk ásamt uppteknum undirleik. Elektónísk bít keyra þessa tónlist áfram og eru aðalundirleikurinn, svo er hinu raðað ofan á til að búa til talsvert stóran hljóðvegg sem raddirnar hlykkjast svo um í harmoníu.

Muck er besta tónleikaband Íslands. Það er sama hver tónleikastaðurinn er; það er sama hversu margir eru í salnum, það er sama hvernig sándið er; það er sama hvort þeir heyra í sjálfum sér eða ekki. Þeir eru alltaf stórkostlegir og ég mun seint þreytast á að dásama þetta band.

Árstíðir skiluðu einstaklega fallegum tónleikum, voru með sellóleikara og trymbil með sér og dýnamíkin var rosaleg. Frá mýkstu nótum, svo veikum og brothættum, upp í risavaxinn hljóðmúr.

Æla spilar pönk, alvöru pönk. Satt best að segja held ég að mér þætti Æla ekki jafn frábær hljómsveit ef meðlimirnir væru í rifnum gallabuxum með öryggisnælur í eyrunum og gaddaólar um hálsinn. En þegar saman koma tónlistin, vídeóið, sviðsframkoman, gervin, glimmerið og gaurinn með hestagrímuna gerist eitthvað.

Fimmtudagur: Anna Margrét Björnsson

Fyrstu tónleikar kvöldsins hjá mér voru Smurjón, sveit sem ég hafði aldrei séð áður en var mjög spennt að sjá þar sem þar gefur að líta hugarfóstur Harðar Bragasonar, orgelleikara og tónskalds sem er þekktastur sem liðsmaður Apparat Organ Quartet. Með honum á sviði var mikill fjöldi tónlistarmanna, tíu manna skrautlegur hópur, ef ég taldi rétt, skipaður meðlimum úr U.X.I , Apparat Organ Quartet og Dj flugvél og geimskip á hinum ýmsu hljóðfærum. Flugvélin sjálf, Steinunn Harðardóttir, er eins og nafnið gefur til kynna dóttir Harðar og það fyrsta sem ég hugsaði á tónleikunum var að ég vildi að ég væri fluga á vegg í þessari fjölskyldu. Lagasmíðarnar voru dásamlega absúrd og textarnir fjölluðu um viðfangefni eins og hundamat, geimkusk og fiskveiðar. Gleði hljómsveitarmeðlima smitaðist til áhorfenda sem stóðu skælbrosandi og hamingjusamir í salnum. Frábær upplifun.

Mr. Silla lék einfalt sett, playback, trommur, söngur. Lögin voru gríðarlega persónuleg og tilfinningaþrungin og engilfögur rödd Sillu nísti eins og hnífur inn að hjarta og snerist þar í sárinu.

Ég hlustaði eitthvað á Mercury Rev þegar ég var unglingur og minnti að þeir væru töff. Arkaði því yfir í Hörpu þar sem fjöldi manns beið eftir að sjá þessa frægu bandarísku jaðarokkssveit. Viðbrögð gesta í kringum mig voru misjöfn en þetta fangaði mig. Gríðarlega þéttur hljóðveggur og sveimandi tónar í átt að shoegaze og skynvillu. Svartklæddi söngvarinn Jonathan Donahue var eins og leðurblaka á miðju sviði þar sem hann reis upp úr reykmekkinum og blakaði handleggjunum.

Næstur á svið var hinn bandaríski Father John Misty, öðru nafni Josh Tillman. Hann var greinilega vinsælasti flytjandi kvöldsins og það mynduðust þéttar raðir upp tröppurnar að Silfurbergi sem erfitt var að troðast í gegnum. Tillman klæddist svörtum jakkafötum með hárið í tagli og kassagítar yfir öxlinni. Hann var eins og kynþokkafullur bandarískur predikari þegar hann hóf tónleikana á laginu Honeybear sem er væntanlega hans þekktasta. Tillman er svakalega flottur performer, eitursvalur með allar sviðshreyfingar á hreinu. Og hvílík rödd. En svo fór eitthvað úrskeiðis í hljóðkerfinu og úr varð einhverskonar allsherjar hátíðni sándfokk.

Föstudagur: Ingvar Jón Bates

Innanveggja [Gamla Bíós] hljómaði náttúrubrími Stereo Hypnosis í einum ópus. Á tjaldi rann myndband af afstrakt umhverfi; hljóð skópu undirdjúp, stórstrúktúra og stjörnuþokur. Félagarnir þrír, Thorarensenfeðgar og Þorkell Atlason, stóðu við langborð af tölvum og effektagripum, einbeittir og prívat. Breið melódía skóp áhrifaríka stemningu er hrærði áheyrendur í innri ró og dvala. Ekki eitt orð féll í salnum og svipbrigði mátti vart greina. Á 23. mínútu datt bítið inn í hljóðgerviheiminn sem loks fjaraði út. Ópusinn tók hálfan tíma í flutningi og uppskar mikinn fögnuð viðstaddra.

Trúboði eða trúbador, eða öfugt, hugsaði rýnir með sér en hann hafði lengi viljað sækja strætismenninguna heim í Fríkirkjuna. William Tyler frá Nashville, Tennessee var nær trúbadornum en all-innblásinn með sinn áleitna akústíska gítarseið án sunginna ljóða undir indískotnum þjóðlagabrag. Í fyrstu fannst rýni nokkur ljóður að ekki sæist í listamanninn, sem hvarf í mannhafið, en áhrifarík tónlistin fékk upphafið vægi við naglfastan bakgrunn kirkjunnar; tóman predikunarstól og altaristöflu með faðmlagi frelsarans undir rauðu ljósabaði. Stórkostlegur viðburður!

Ef Tyler stóð svo gott sem nakinn frammi fyrir skapara sínum, þá hvarf Perfume Genius a.k.a Mike Hadreas frá Seattle inn í óperuskotinn heim ljósa, upplausnar og ímynda á stórasviði Airwaves, Silfurbergi. Perfume Genius virkaði öllu stærra og flóknara egó; nokkur sláttur var á manninum á sviði, og spurningarmerkin hlóðust upp, hver er þetta? Eins var mikill frontur í útsetningum og krókaleiðir farnar í tjáningu með söng og öskrum enda snúin persóna er hefur átt í ströggli með samkynhneigð, brotið æskuheimili og sjúkdóma. Þunglamalegar, hægar og langar laglínur í angurværri væmni innan um óteljandi layera leituðu á rýni sem narsistískt baroque-popp. Bandið vann vel á og PG kvaddi funheitur í laginu Queen með nokkrum klímaxi.

Ariel Pink frá LA kom rýni fyrir sjónir sem gegnsýrður eklektískur ambience-poppari. Tónlistin virkaði full-sérviskusýruleg fyrir marga framlága áheyrendur sem yfirgáfu samkvæmið. Varpað var upp á tjald ýmsum nörda-stemmurum, til að mynda space-fiskum og risaeðlum í hallærislegri 80's-tölvumyndagrafík. Þegar yfir lauk fór rýnir heim allvel verseraður í dekadent jaðarpoppi; flúksi, flóknum taktvef og nostri við útsetningar með nokkrum progrokkbrag því sjö manna bandið er stóð að baki Ariel Pink var feikivel spilandi og þétt.

Laugardagur: Hjalti Stefán Kristjánsson

Ef einhverjar eru að fara að hreyfa við gildunum sem meðaljóninn hefur í dag eru það Reykjavíkurdætur. Ég vona að ég hljómi ekki eins og eitthvert tónlistarsnobb þegar ég segi að þetta sé bara rapp, en jiminn. Ég hef áður ritað um hvernig er að finna kraftinn í gegnum tónlistina og fáar hljómsveitir skila henni á jafnafgerandi hátt og Dæturnar. Í upphafi var rapp uppreisn svartra Bandaríkjamanna. Nú er rappið uppreisn kvenna. Ég hefi meðtekið þau skilaboð. Ég er bróðir Reykjavíkurdætra, ég er ekki tabú. Ég er drusla!

Til að halda kvennabyltingunni áfram var næsta skref Kælan mikla. Ég lendi yfirleitt í miklum vandræðum þegar ég er spurður út í Kæluna - hvar á að setja hana? Vissulega spila þær electro-tónlist en samt spila þær pönk og það er einmitt heila málið. Eini samnefnarinn sem ég, með mínum gamaldags huga, finn fyrir byltingartónlist er pönk. Pönk er frábært. Það er fátt sem mér finnst skemmtilegra en hrá, gróf tónlist sem gefur skít í öll norm. Og það er klárlega eitt af því sem Kælan gerir. Hún stendur ekki fyrir neitt annað en sjálfa sig. Hún er skilgreind sem no wave / poetry punk og það er svo sem fátt annað um tónlistina þeirra að segja. Sjón er sögu ríkari og Kælan mikla er eitt af þessum böndum sem allir verða að sjá.

Þar [Kaldalóni] fór Jakob Frímann Magnússon mikinn í djassbræðingi sem hefði sómt sér vel á hvaða New York-knæpu sem er. Það var gaman að horfa á hinn virðulega miðborgarstjóra láta allt vaða á fílabeininu og íbenholtinu. Það fór ekki á milli mála að þarna var Jakob í essinu sínu.

Hin bandaríska Beach House er hljómsveit sem ég hef ekkert heyrt af, gamaldags sem ég er. Hins vegar heyrði ég á þeim tónleikum gamla tónlistarstefnu ganga í endurnýjun lífdaga því Beach House er trip-hop-band. Samkvæmt skilgreiningum Wikipedíu eru þau dream pop en mér finnst líkindin of mikil til að skilja á milli. Því miður höfðaði Beach House ekki til mín, ég hefði þá kannski loksins tilheyrt fjöldanum.

Sunnudagur: Hallur Már

Ísland sveikst ekki um að verða erlendu gestunum, sem komnir voru á klakann á Airwaves, innblástur. Þeir stóðu í hópum fyrir utan Vodafone-höllina á sunnudagskvöldinu og virtu fyrir sér norðurljósin sem leiftruðu á himni, greinilega uppnumdir. Þegar inn var komið var þó lítið sem minnti á íslenska náttúru hjá böndunum sem fengu tækifæri á stóra sviðinu. Agent Fresco var á sviði þegar ég kom inn og sveitin er greinilega í fantaformi og krafturinn virtist falla vel í kramið hjá fólki.

Stemningin í litla salnum á efri hæðinni í Vodafone-höllinni átti þó lítið skylt við norðurljósadýrðina úti. Nokkrir raftónlistarmenn spiluðu þar fyrir litskrúðugan hóp fólks. Án þess að fara nánar út í það er þó allavega ljóst að margir hafa skemmt sér ærlega á hátíðinni á undanförnum dögum.

Úlfur Úlfur var næst á svið í stóra salnum, en í þetta skiptið hafði sveitin með sér meðlimi úr Agent Fresco á sviðinu. Lögin nutu góðs af kraftinum í bandinu og sérstaklega var smellurinn Brennum allt, vel heppnað.

Sleaford Mods er sérstakt atriði. Einsleitir en vel útfærðir taktar með töffaralegum bassalínum í öllum lögum. Ekkert prjál, engir symbalar, ekkert vesen. Söngvarinn Jason Williamson var í sömu stellingunni alla tónleikana og þrumaði út úr sér einhverju sem virtist vera lýsingar á aðstæðum lágstéttarinnar á Bretlandi með þykkum hreimi. Því miður var erfitt að greina nákvæmlega hvað Williamsson var að segja og einhvern veginn varð manni nokkrum sinnum hugsað til að þess að hljómsveitin hefði kannski betur átt heima á litlum sóðalegum stað. Þá heyrði maður á fólki í kring um sig sem ekki kunni að meta herlegheitin að það furðaði sig á skipulagningunni. Þeir félagar voru samt flottir og það var undarlega sefandi að horfa á taktsmiðinn Fearn dilla sér við tónlistina með aðra höndina ofan í vasa en Red Bull dós í hinni, sannkallað zen-móment.

Beach Boys sáu um að kynna Hot Chip, aðalatriði kvöldsins, til leiks. Bandið var frábært með frábæran kven-trommara sem stal senunni á köflum. Hot Chip er partýmúsík og náungarnir sem voru við hlið mér voru greinilega gíraðir í partý. Hinsvegar var ég bara orðinn nokkuð lúinn eftir tónleikaráp undanfarinna daga og hefði kannski verið meira til í að sjá Jóhann Jóhannsson í Hallgrímskirkju. Smellurinn Over and over var þó augljós hápunktur tónleikanna sem hefðu notið góðs af fleiri blæbrigðum sem Hot Chip hafa fullkomlega á valdi sínu.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Samræður við stjórnendur, foreldra og yfirboðara eru beinskeyttar og ákafar í dag. Alls kyns spennandi tækifæri til vaxtar eru fyrir hendi núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Ragnar Jónasson
3
Sólveig Pálsdóttir
4
Moa Herngren
5
Jojo Moyes
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Samræður við stjórnendur, foreldra og yfirboðara eru beinskeyttar og ákafar í dag. Alls kyns spennandi tækifæri til vaxtar eru fyrir hendi núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Ragnar Jónasson
3
Sólveig Pálsdóttir
4
Moa Herngren
5
Jojo Moyes