„Hagamaðurinn" dæmdur í 14 ára fangelsi í Svíþjóð

Svíi á fertugsaldri hefur verið dæmdur í 14 ára fangelsi fyrir að ráðast á fimm konur í Umeå og nauðga þeim eða gera tilraun til þess að nauðga þeim. Þá var maðurinn einnig fundinn sekur um að hafa reynt að verða einni konunni að bana. Svíinn, sem nefndur hefur verið „Hagamaðurinn" í sænskum fjölmiðlum, var einnig dæmdur til að greiða fórnarlömbunum samtals um 9 milljónir íslenskra króna í bætur.

Maðurinn heitir Niklas Lindgren og er 33 ára gamall. Hann var handtekinn í mars eftir að DNA-rannsóknir tengdu hann við árás á 51 árs gamla konu í desember á síðasta ári.

Héraðsdómur í Umeå fann Lindgren sekan um að hafa nauðgað þremur konum og gert tilraun til að nauðga fjórðu konunni og myrða þá fimmtu. Þetta gerðist á tímabilinu 1998 til 2005. Einum ákærulið var vísað frá vegna skorts á sönnunargögnum.

Lindgren neitaði fyrst sök en lögregla segir að hann hafi á endanum játað að hafa ráðist á fimm konur á aldrinum 15 til 51 árs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert