5.000 hermenn UNIFIL komnir til Líbanons

Franskir friðargæsluliðar í Tyre í Líbanon
Franskir friðargæsluliðar í Tyre í Líbanon Reuters

UNIFIL, friðargæslulið Sameinuðu þjóðanna í Líbanon náði í dag fimm þúsund manna liðsstyrk, liðið verður skipað 15.000 mönnum þegar það verður fullmannað, en Ísraelar hafa sagst ætla að draga allt lið sitt frá Líbanon þegar UNIFIL nái fimm þúsund mönnum.

Dan Halutz, yfirmaður ísraelska hersins sagði við ísraelska þinginu í gær að síðasti ísraelski hermaðurinn færi frá Líbanon á föstudag, en fréttastofan AP hefur eftir ónafngreindum heimildum innan ísraelska hersins að liðsflutningar Ísraela gangi mun hægar en til hafi staðið og að ólíklegt sé að Ísraelar verði farnir frá Líbanon fyrir helgi.

Ísraelar hafa dregið mikið lið frá Líbanon, en þúsundir hermanna eru þar þó enn, þá eru um 9.000 líbanskir hermenn komnir að landamærunum í suðurhluta Líbanons. Alain Pelligrini, yfirmaður UNIFIL segir talsmenn ísraelskra og líbanskra heryfirvalda og yfirmenn friðargæsluliðsins hafa átt árangursríkan fund í dag og að liðsflutningarnir gangi vel. Fuad Saniora, forsætisráðherra Líbanons, er þó sagður hafa fyrirskipað utanríkisráðuneytinu að skrifa bréf þar sem síendurtekin brot ísraelsmanna á loft- og landhelgi eru gagnrýnd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert