Danskir múslímar kalla á samvinnu um að halda ungu fólki frá öfgahyggju

Stuðningsmenn sakborninganna fjögurra bregðast við dómunum yfir þeim í Kaupmannahöfn …
Stuðningsmenn sakborninganna fjögurra bregðast við dómunum yfir þeim í Kaupmannahöfn í gær. Einn þeirra var sakfelldur en þrír sýknaðir vegna skorts á sönnunum. AP

Samtök múslíma í Danmörku hafa hvatt yfirvöld í landinu til þess að láta fara fram rannsókn á því hvernig og hvers vegna ungir múslímar í landinu snúist til öfgahyggju en dómstóll í Danmörku dæmdi í gær hinn 17 ára Abdul Assid Abu til sjö ára fangelsisvistar fyrir að leggja á ráðin um hryðjuverk í Evrópu.

„Það hryggir okkur mjög að það skuli vera önnur kynslóð innflytjenda sem íhugar að ógna öryggi Danmerkur með skipulagningu hryðjuverka. Því hvetjum við yfirvöld til að láta fara fram rannsókn á því hvers vegna sumir ungir múslímar lenda á villigötum og verða öfgasinnaðir. Við viljum gjarnan vinna með yfirvöldum að framkvæmd slíkrar rannsóknar sem er algerlega tímabær,” segir Kasem Ahmad, talsmaður samtakanna í viðtali við dagblaðið 24timer

„Við gerum allt sem við getum til að halda sambandi við unga menn í okkar röðum en á sama tíma vitum við að öfgahyggjan togar í suma þeirra. Við getum ekki tekist á við þetta vandamál ein.”

Rikke Hvilshøj, ráðherrainnflytjendamála í dönsku stjórninni segir hugmyndina áhugaverða og hefur lýst sig reiðubúna til að hitta fulltrúa samtakanna. „Hafi samtökin ákveðnar hugmyndir um það hvernig við getum öðlast betri skilning á því hvers vegna þetta unga fólk aðhyllist öfgahyggju vil ég gjarnan hitta fulltrúa þeirra,” segir hún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert