Íbúar á Norðurbrú verða sjálfir að greiða fyrir nýjar ruslatunnur

Eldur logar glatt í ruslatunnum Norðurbrúarbúa um helgina.
Eldur logar glatt í ruslatunnum Norðurbrúarbúa um helgina. Reuters

Íbúar Norðurbrúar í Kaupmannahöfn verða sjálfir að bera tjón, sem þeir urðu fyrir í óeirðum ungmenna, sem vildu mótmæla niðurrifi Ungdomshuset fyrir helgina. Talið er að ungmennin hafi tekið um 500 ruslatunnur og notað þær í götuvígi og bálkesti. Talsmaður fyrirtækisins, sem sér um sorphreinsun í hverfinu, segir að íbúarnir verði sjálfir að greiða fyrir nýjar tunnur. Hver tunna er verðlögð á 2000 danskar krónur og samtals er ruslatunnureikningurinn því um 1 milljón danskra króna, jafnvirði 12 milljóna íslenskra króna.

„Ég hef aldrei áður vitað til, að jafn margar ruslatunnur hafi verið notaðar sem brjóstvörn í átökum við lögreglu. Og borgararnir sjálfir þurfa að endurnýja þær," er haft eftir Hendik Lind, framkvæmdastjóra sorphreinsunarfyrirtækisins R98 á fréttavef Nyhedsavisen.

Lind segir, að fyrirtækið ætli ekki strax að fara með nýjar tunnur út á Norðurbrú. „Ég ætla að bíða í nokkra daga. Við viljum síður, að þær verði notaðar í nýjum átökum."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert