Flugsamkomulag milli Bandaríkjanna og ESB tekst á loft

Evrópusambandið hóf nýtt skeið í farþegaflugi milli Evrópu og Bandaríkjanna í dag er það gerði samkomulag við Bandaríkin sem mun stórlækka flugfargjöld og auka samkeppni milli flugfélaga.

Samgönguráðherrar ESB samþykktu samkomulagið einróma, en það mun gera evrópskum flugfélögum kleift að fljúga frá hvaða borg sem er, sem tilheyrir einhverju ESB-landanna 27, til Bandaríkjanna og öfugt. Nýja samkomulagið tekur við af gamla tvíhliða samkomulaginu sem var gert á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar og var ýmsum takmörkunum háð.

Samkomulagið átti að taka gildi í október á þessu ári en Bretar óskuðu eftir því að beðið yrði í fimm mánuði með gildistöku þess. Það samþykktu samgönguráðherrar ESB og því mun það taka gildi 30. mars á næsta ári. .

Bandarísk stjórnvöld sögðu að stuðningur ráðherra ESB væri „sögulegur“ eftir fjögurra ára viðræður. Þá sögðust þau jafnframt ætla að samþykkja töfina á gildistöku samkomulagsins fram í mars.

Samgönguráðherra Þýskalands, Wolfgang Tiefensee, sem fór fyrir viðræðunum, sagði samkomulagið marka tímamót sem muni efla tengsl Bandaríkjanna og Evrópu. Hann sagði jafnframt að samkomulagið muni bæði koma neytendum og flugfélögum til góða.

Hlutabréf í evrópskum flugfélögum hækkuðu í verði þegar þau greindu frá nýjum flugleiðum og verðbréfamiðlarar spá því að samkomulagið muni leiða til mörg flugfélög muni sameinast, enda þröngt á þingi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert