Leiðtogi víetnömsku mafíunnar í Svíþjóð handtekinn

Lögregla í Gautaborg í Svíþjóð hefur handtekið 48 ára gamlan mann, sem talinn er vera leiðtogi víetnömsku mafíunnar í landinu. Hefur maðurinn verið ákærður fyrir morð. Hann kom til Noregs sem flóttamaður á áttunda áratug síðustu aldar en flutti síðan til Svíþjóðar og hefur búið þar í 15 ár. Að sögn sænskra fjölmiðla hefur hann undanfarin ár stýrt víetnömskum glæpasamtökum þar með harðri hendi.

Vefmiðillinn GE.se segir, að maðurinn sé grunaður um að hafa fyrirskipað að tveir menn, sem ógnuðu stöðu hans innan glæpasamtakanna, skyldu teknir af lífi.

Í húsleit á heimili mannsins fannst skuldaviðurkenning fyrir 1,5 milljónir sænskra króna. Lögregla segir, að stór þáttur glæpasamtakanna sé okurlánastarfsemi, oft í tengslum við fjárhættuspil. Einnig kúgi glæpasamtökin fé af kaupmönnum og veitingahúsaeigendum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert