Íranar saka Bandaríkin um að bera ábyrgð á hryðjuverkum í Írak

Manouchehr Mottaki flytur ræðu á fundinum í Sharm el-Sheikh.
Manouchehr Mottaki flytur ræðu á fundinum í Sharm el-Sheikh. Reuters

Manouchehr Mottaki, utanríkisráðherra Írans, sagði í ræðu á ráðstefnu um málefni Íraks í dag, að Bandaríkin verði að axla ábyrgð á hryðjuverkastarfsemi og ofbeldisverkum, sem leitt hafi af hernámi þeirra í Írak. Ummæli Mottakis eru sögð hafa fallið í grýttan jarðveg hjá íröskum ráðamönnum.

Nú stendur yfir ráðherrafundur í Sharm el-Sheikh í Egyptalandi um málefni Íraks og er Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, meðal ráðstefnugesta. Mottaki sagði í ræðu á fundinum í dag, að Bandaríkin ættu að leggja fram skýra áætlun um brottflutning herja frá Írak svo þar geti komist á friður og jafnvægi að nýju.

Þá krafðist hann þess einnig, að fimm Íranar, sem Bandaríkjaher handtók í norðurhluta Íraks í janúar, yrðu látnir lausir. Sagði hann annað ófyrirleitið brot á alþjóðasáttmálum. Bandaríkjamenn halda því hins vegar fram, að Íranarnir hafi aðstoðað uppreisnarmenn við vopnakaup og fjármögnun.

Íraska sendinefndin í Egyptalandi tók ræðu Mottakis óstinnt upp. Nouri al-Maliki, forsætisráðherra, fer fyrir sendinefndinni en hann hefur reynt að miðla málum í deilum stjórnvalda í Íran og Washington og jafnframt reynt að afla stuðnings við áætlun um að koma á stöðugleika í Írak.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert