Meirihluti Dana hlynntur blæjubanni meðal opinberra starfsmanna

Blæjuklæddar konur í Afganistan.
Blæjuklæddar konur í Afganistan. AP

59% Dana eru andvígir því að starfsmenn hins opinbera beri blæjur sem hylja andlit þeirra að hætti múslímakvenna og eru því fylgjandi stefnu dönsku stjórnarinnar í málinu. Þá vilja allt að 87% Dana að allir starfsmenn leikskóla sinni störfum sínum blæjulausir. Þetta eru niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar sem fyrirtækið Epinion Capacent vann fyrir blaðið Urban og greint er frá á fréttavef Jyllands-Posten.

„Borgararnir eiga kröfu á því að bera kennsl á þá sem gegna opinberum stöðum og það á við um öll störf. Mér finnst ekki hægt að skilgreina sum störf sem annars flokks störf og setja aðrar reglur um þau,” segir ráðherrann Claus Hjort Frederiksen.

„Ég verð því miður að lýsa mig ósammála meirihlutanum, Ég get ekki séð að blæja komi í veg fyrir það að hreinsitæknar sinni starfi sínu með fullnægjandi hætti,” segir Dennis Kristensen, formaður starfsmannafélags opinberra starfsmanna (FOA). „Við erum að færast í átt til þess sem kalla má mismunun án tillits til faggreina og það er ólöglegt.” Hann kveðst þó sammála því að starfsmenn sem eigi bein samskipti við borgarana að hálfu hins opinbera verði að vinna blæjulausir þar sem blæjunotkun á þeim vettvangi geti staðið í vegi fyrir tengslamyndun á milli almennings og hins opinbera.

Tvær konur sem starfa hjá Árósabæ voru nýlega teknar af skár yfir umsækjendur um störf hjá bænum þar sem þær neita að taka af sér blæjuna í atvinnuviðtölum. Þá kom nýlega til mótmæla í Óðinsvéum þar sem starfmaður á leikskóla krafðist þess að fá að sinna vinnu sinni með blæju fyrir andlitinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert