Sænska forsætisráðherranum sýnt vatnsbyssutilræði

Fredrik Reinfeldt var sýnt vatnsbyssutilræði sem Säpo tekur mjög alvarlega.
Fredrik Reinfeldt var sýnt vatnsbyssutilræði sem Säpo tekur mjög alvarlega. Reuters

Sænska leyniþjónustan hefur lagt fram kæru vegna vatnsbyssuárásar sem gerð var á Fredrik Reinfeldt forsætisráðherra Svía fyrir utan kvikmyndahús í Stokkhólmi í gærkvöldi. Samkvæmt sænskum fjölmiðlum athugar nú saksóknari hvort fylgja beri eftir kæru á hendur starfsmanni Strix Television sem sprautaði vatninu.

Leyniþjónustan, Säpo, lítur árásina alvarlegum augum sérstaklega með tilliti til fyrri árása á sænska ráðherra.

Sjónvarpsfólkið sprautaði vatninu á Reinfeldt er hann fór með syni sína tvo á frumsýningu kvikmyndarinnar Pirates of the Caribbean fyrir utan Rigoletto kvikmyndahúsið í miðborg Stokkhólms í gærkvöldi.

„Við sjáum ekki alveg glensið í þessu,” sagði blaðafulltrúi forsætisráðherrans í samtali við Svenska Dagbladet.

Sjónvarpsfólkið var á vegum SVT sjónvarpsstöðvarinnar sem hefur sent frá sér tilkynningu þar sem beðist er afsökunar á „tilræðinu” og þar kemur fram að myndefnið verður ekki sent út. Strix Television hafa framleitt grínþætti þar sem þeir sprauta vatni á frægt fólk, hafa til dæmis sprautað vatni á söngkonuna Carolu og fleiri fræga Svía.

Þættirnir munu vera gerðir að breskri fyrirmynd nema að Svíarnir eru vænni en Bretar að því leyti að þeir nota vatn en ekki blek.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert