Fundur Blairs í Jórdaníu sagður hafa verið „uppbyggilegur“

Tony Blair ásamt Abdel Ilah Khatib í Jórdaníu í dag.
Tony Blair ásamt Abdel Ilah Khatib í Jórdaníu í dag. AP

Tony Blair fundaði með utanríkisráðherra Jórdaníu, Abdel Ilah Khatib, í dag í jómfrúarferð sinni til Mið-Austurlanda sem sérstakur sendifulltrúi Mið-Austurlanda kvartettsins svokallaða. Að sögn talsmanns Blairs voru viðræðurnar bæði „uppbyggilegar og jákvæðar“.

„Fundurinn var mjög jákvæður og uppbyggilegur og Jórdanar fögnuðu útnefningu Blairs,“ sem sérstaks sendifulltrúa, sagði talsmaður Blairs í samtali við AFP-fréttastofuna. Fundurinn fór fram í utanríkisráðuneyti Jórdaníu og stóð í um klukkustund.

Að sögn talsmannsins var Blair afar þakklátur jórdönskum stjórnvöldum sem hafa heitið því að vinna afar náið með honum. Ekki fékkst hinsvegar upp gefið í smáatriðum um hvað þeir Blair og Khatib ræddu.

Blair mun einnig heimsækja Ísraela og Palestínumenn á Vesturbakkanum. Talsmaðurinn segir að Blair muni ekki sitja fund með Hamas-samtökunum.

Blair mun síðar í dag ræða við Tzipi Livni, utanríkisráðherra Ísraels, og Ehud Barak, varnarmálaráðherra landsins.

Bandaríkin, Evrópusambandið, Sameinuðu þjóðirnar og Rússlands standa á bak við Mið-Austurlanda kvartettinn svokallaða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert