Hringdi í lögregluna til að kvarta yfir kókaíninu

Bandarísk kona á sextugsaldri hringdi í lögregluna í síðustu viku til að leita aðstoðar við að fá endurgreitt fyrir kókaín sem hún hafði keypt. Hún sagðist hafa keypt köttinn í sekknum, því að þegar til kom var um að ræða „gervikókaín.“

Konan býr í Rochelle í Georgíuríki. Hún hafði keypt mola af því sem hún taldi vera krakk-kókaín fyrir 20 dollara. Hún braut molann í þrjá minni og reykti einn þeirra og uppgötvaði þá að efnið var svikið.

Þegar lögreglumenn komu heim til hennar leiddi hún þá inn í eldhús og sýndi þeim efnið. Hún var þá handtekin og ákærð fyrir fíkniefnavörslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert