„Efnavopna Alí“ lét taka fanga af lífi „í hollum“

„Efnavopna Alí.“
„Efnavopna Alí.“ Reuters

Hinn alræmdi böðull Saddams Husseins, fyrrverandi Íraksforseta, svonefndur „Efnavopna Alí,“ var í dag sakaður um að hafa látið taka fanga af lífi „í hollum“ þegar hann braut miskunnarlaust á bak aftur uppreisn síjta í Írak 1991. Hann og 14 aðrir eru nú fyrir rétti, ákærðir fyrir glæpi gegn mannkyninu.

„Efnavopna Alí“ heitir réttu nafni Ali Hassan al-Majid. Hann hefur þegar verið dæmdur til dauða í öðrum réttarhöldum þar sem hann var fundinn sekur um þjóðarmorð. Er þess vænst að hann verði hengdur fljótlega eftir að þessum réttarhöldum lýkur.

Vitni bar við réttarhöldin í dag að sonur sinn hafi verið í hópi um 200 manna sem teknir voru af lífi á íþróttaleikvangi skammt frá Basra í Suður-Írak 25. mars 1991. Sagði vitnið að fólkið hefði verið „tekið af lífi í hollum, 25 í hverju.“ Majid hafi verið viðstaddur fyrstu aftökuna og hafi síðan gefið undirmönnum sínum fyrirskipun um að halda aftökunum áfram og horfið á braut.

„Efnavopna Alí“ og samverkamenn hans eru ákærðir fyrir að hafa haft yfirumsjón með blóðbaði þar sem öryggissveitir Saddams myrtu hátt í hundrað þúsund manns í mars 1991.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert