Aðgerð á „gyðjubarninu" gekk vel

Aðgerð, sem gerð var til að fjarlægja útlimi af tveggja ára gamalli indverskri stúlku, gekk afar vel að sögn lækna en aðgerðin stóð í sólarhring. Stúlkan, sem nefnd hefur verið gyðjubarnið, var fædd með fjóra handleggi og fjóra fótleggi og voru aukaútlimirnir fjarlægðir í aðgerðinni.

Sharan Patil, sem fór fyrir læknahópnum sem gerði aðgerðina í indversku borginni Bangalore, sagði að aðgerðin hefði heppnast afar vel og betur en læknarnir þorðu að vona.

Stúlkan, sem heitir Lakshmi, var með sníkjutvíbura, fóstur sem hætti að þroskast í legi móður hennar. Það fóstur, sem eftir lifði „yfirtók" hitt fóstrið og því fæddist stúlkan með átta útlimi, tvær mænur og samtvinnaðar taugar í líkama hennar, fjögur nýru og tvo maga.

Stúlkan fæddist á degi hindúagyðju velferðar og hefur hún verið álitin endurholdgun hennar í heimaþorpi sínu í Bihar-ríki Indlands. Foreldrar hennar ákváðu hins vegar að læknisráði að leita allra leiða til að gera líf hennar sem eðlilegast. Segjast þau hafa orðið fyrir miklu áreiti eftir fæðingu hennar og að þau hafi m.a. fengið tilboð í hana frá fjölleikahúsum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert