Alvarlegt umhverfisslys á Svartahafi

Strendur Svartahafs eru í hættu.
Strendur Svartahafs eru í hættu. Reuters

Rússneskt olíuskip hefur rifnað í tvennt í miklum stormi á Svartahafi í morgun og hafa um 1300 tonn af eldsneyti lekið úr því. Rússneskur embættismaður sagði slysið vera mjög alvarlegt umhverfisslys sem tæki mörg ár að hreinsa upp. Skipið var á Kerch sundi milli Azovshafs og Svartahafs þegar það brotnaði í 5 metra ölduhæð í morgun.

Erfitt hefur reynst að bjarga 13 manna áhöfn vegna veðurofsa.

Olíuskipið sem er í eigu rússneska fyrirtækisins Volganeft lá við ankeri þegar stefnið rifnaði frá í storminum.

Slysið varð innan lögsögu Úkraínu sem sundið skilur frá Rússlandi. Olíuflutningaskipið var að flytja eldsneyti frá rússnesku borginni Samara sem er við ánna Volgu á leið til hafnar í Úkraínu.

Fréttavefur BBC segir frá því að annað skip sem flytur um 2000 tonn af brennisteini hefði einnig sokkið skammt frá olíuskipinu. Níu manna áhöfn var bjargað í land.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert