Hitastig hefur ekki hækkað

Ísjakar við Grænland.
Ísjakar við Grænland. AP

Danski prófessorinn Ole Humlum segir að þvert á það sem almennt sé talið hafi hitastig í heiminum ekki hækkað á undanförnum tíu árum. Þá segir hann að áhrif losunar kolefnis út í andrúmsloftið á veðurfar jarðar sé stórlega ofmetið í reiknilíkönum sem m.a. eru notuð af Sameinuðu þjóðunum. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

Humlum segir að á síðustu tíu árum hafi kólnað verulega á ísbreiðunni við suðurheimskautið. Á íshellunni við norðurheimsskautið hafi hins vegar hitastig hækkað lítillega.

„Á tíu árum höfum við ekki séð neina hækkun hitastigs í heiminum þrátt fyrir að kolefnislosun út í andrúmsloftið hafi aukist mikið á sama tímabili. Með þeirri aukningu, sem við höfum séð, hefðum við átt að sjá 0,2 til 0,3 gráðu hækkun hitastigs væru reiknilíkönin rétt. Það höfum við ekki gert. Það hlýtur því eitthvað að vera rangt í líkönunum,” segir hann. „Þetta þýðir að áhrif kolefnis í andrúmsloftinu eru ofmetin og það eru skilaboð til okkar allra um að sýna meiri auðmýkt í umræðunni um veðurfar. Það kæmi mér ekki á óvart ef hitastig lækkaði enn frekar á næstu tíu til tuttugu árum."

Gagnrýnendur hans segja hins vegar að ekki sé að draga neinar ályktanir um þróun hitastigs jarðar út frá tíu ára tímabili. „Ole Humlum hefur fullkomlega rétt fyrir sér varðandi það að hitastig hefur ekki hækkað á síðustu tíu árum. Hann hefur einnig rétt fyrir sér í því að  það er margt varðandi loftslagið sem við skiljum ekki. Rök liggja að því að hitastig muni hækka og að gróðurhúsaáhrifin séu til staðar. Ég er þó ekki sannfærður um það að við skiljum að fullu áhrif þeirra á hitastigið,” segir Jørgen Peder Steffensen, talsmaður  Niels Bohr stofnunarinnar við Kaupmannahafnarháskóla.

Humlum er danskur prófessor í landafræði við háskólann í Ósló og hefur starfað við rannsóknir á Grænlandi, Svalbarða og í Noregi á undanförnum árum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert