Liechtenstein gefur út handtökuskipun

Vaduz-kastali í höfuðstað Liechtenstein.
Vaduz-kastali í höfuðstað Liechtenstein. Reuters

Yfirvöld í Liechtenstein gáfu í dag út alþjóðlega handtökuskipun á hendur manni sem grunaður er um að hafa lekið trúnaðarupplýsingum banka er leiddu til þess að ríki víða um heim hófu rannsóknir á meintu undanskoti á skattfé sem kann að vera geymt í bönkum í Liechtenstein.

Mynd af miðaldra manni með skalla og gleraugu var birt á vef lögreglu landsins í gær, ásamt ósk um upplýsingar um hvar hann haldi sig.

Í tilkynningu lögreglunnar segir, að maðurinn, Heinrich Kieber, 42 ára, sé grunaður um að hafa komist yfir trúnaðarupplýsingar um viðskiptavini fjármálastofnunar í Liechtenstein og selt þær til erlendra yfirvalda.

Þýsk stjórnvöld hafa greint frá því að leyniþjónusta landsins hafi greitt manni fjórar milljónir evra fyrir disk sem talinn var hafa að geyma nöfn 1.400 meintra skattsvikara, þar af 600 þýskra.

Upplýsingarnar sem þýsk yfirvöld fengu hafa leitt til skattrannsókna í fjölda landa, þ.á m. hafa íslensk skattayfirvöld óskað eftir að fá listann frá Þjóðverjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert