Ekki samkomulag um NATO-aðild Úkraínu og Georgíu

Ekki er samstaða meðal NATO-ríkjanna um aðildaráætlun fyrir Úkraínu og Georgíu eins og George W. Bush, Bandaríkjaforseti, hefur lagt áherslu á. Frakkar og Þjóðverjar eru sagðir leggjast gegn því að bandalagsið stækki til austurs til að styggja ekki Rússa.

„Ég yrði ánægður ef ég hefði rangt fyrire mér en ég býst ekki við aðildaráætlun fyrir Georgíu og Úkraínu," sagði James Appathurai, talsmaður NATO.

Háttsettur bandarískur embættismaður sagði einnig, að ekki hefði náðst samstaða í röðum leiðtoga aðildarríkja NATO um að opna dyrnar fyrir löndunum tveimur.

Sendimenn segja, að NATO muni senda frá sér yfirlýsingu um að aðild gæti staðið löndunum til boða ef þau halda áfram stjórnmálalegum og hernaðarlegum umbótum.

Samkomulag náðist hins vegar um að bjóða Albaníu og Króatíu aðild að NATO. Ljóst þykir, að Grikkir muni beita neitunarvaldi gegn því að Makedóníu verði boðin aðild.

Málefni Afganistans eru einnig ofarlega á baugi á leiðtogafundi NATO, sem hófst í Rúmeníu í dag. Appathurai sagði, að Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, hefði boðist til að senda 700 manna herdeild til að aðstoða Bandaríkjaher í aðgerðum í austurhluta Afganistans þar sem átök við uppreisnarmenn hafa verið hörðust. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert