Bush: Vonast eftir friðsamlegri lausn á deilunni við Íran

George W. Bush, forseti Bandaríkjanna og Angela Merkel, kanslari Þýskalands, …
George W. Bush, forseti Bandaríkjanna og Angela Merkel, kanslari Þýskalands, í dag. Reuters
George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, segist vonast til þess að friðsamleg lausn náist í deilum vesturlanda við Írana vegna kjarnorkuframleiðslu þeirra án þess að útiloka að hervaldi verði beitt. Þetta kom fram í máli Bush á blaðamannafundi með Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, í dag. 

Hvetur Bush ríki Evrópu til þess að sameinast um að herða refsiaðgerðir gegn Írönum en segist helst vilja að deilan leysist við samningaborðið. „En allir möguleikar eru í stöðunni," segir Bush sem hefur ítrekað sagt að ekki sé hægt að útiloka hernaðaraðgerðir gegn Íran.

Íranar svöruðu Bush hins vegar fullum hálsi í dag en stjórnvöld í Íran segja auðgun úrans í Íran sé í friðsamlegum tilgangi.

Forseti Írans, Mahmoud Ahmadinejad, sagði á útifundi í Teheran í dag að tími Bush væri á enda og að markmið Bush um að ráðast inn í Íran hefði ekki náðst. Ahmadinejad sagði Bush vera með Íran í skotlínunni eftir að hafa sent herlið inn í Írak og Afganistan. „Ég segi þér (Bush) að tími þinn er liðinn," sagði Ahmadinejad og bætti við „með náð Guðs mun þér aldrei takast að eyðileggja einn sentímetra af heilögu landi Írans."

Merkel, sagði á blaðamannafundinum að ef Íranar myndu ekki hætta auðgun úrans þá yrði að herða refsiaðgerðir gegn landinu.

Javier Solana, aðaltalsmaður ESB í utanríkismálum, sagði í dag að hann teldi að enn væri hægt að finna friðsamlega lausn á deilunni við Írana og sagðist vonast til þess að ferð hans til Írans á laugardag myndi skila árangri.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert