Börn brennd inni í Danmörku

Tveir drengir, tveggja og átta ára, létu lífið er kveikt var í heimili þeirra á Fjóni í Danmörku í nótt. Kveikt var í tveimur húsum í Tommerup Stationsby og Brobyværk í nótt. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

„Það bjuggu þrír einstaklingar í raðhúsi sem kveikt var í í  Teglhøjen í Tommerup, móðir og tvö börn hennar ,” segir Jack Liedecke,  yfirmaður rannsóknadeildar lögreglunnar á Fjóni. „Móðirin var lögð inn á háskólasjúkrahúsið í Óðinsvéum með reykeitrun en við getum því miður staðfest að börnin létu lífið í eldsvoðanum."

Eldur frá húsinu læsti sig einnig í samtengd raðhús og þurfti íbúar þeirra að yfirgefa heimili sín.

Engin slys urðu á fólki í eldsvoðanum sem varð í kjölfar íkveikjunnar í Brobyværk en húsið brann til kaldra kola.

Þrátt fyrir að einungis tíu kílómetrar séu á milli húsanna sem kveikt var í telur lögregla ekki að íkveikjurnar tengist.

Grunur er um að brennuvargurinn í Brobyværk tengist íbúum hússins. Ekki liggja hins vegar fyrir neinar vísbendingar um það hver stóð á bak við íkveikjuna i Tommerup Stationsby.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert