Fjögurra ára fangelsi fyrir að neyða dóttur sína í hjónaband

Fimmtugur innflytjandi í Noregi hefur verið dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir að neyða dóttur sína til að giftast frænda hennar í heimalandi þeirra, Írak, fyrir fjórum árum. Allt að sex ára fangelsi liggur við því í Noregi að neyða einhvern í hjónaband.

Dóttirin er nú tvítug. Hún bar fyrir rétti að hún hafi sætt ofbeldi og hótunum. Mun faðir hennar hafa hótað að drepa hana ef hún neitaði að giftast frænda sínum.

Þegar fjölskyldan ætlaði að fara í „frí“ til Íraks hafði dóttirin samband við norsk yfirvöld og kvaðst óttast að faðir sinn myndi skilja sig eftir í Írak. Hún kom þó aftur til Noregs með fjölskyldunni eftir fríið, en nokkrum mánuðum síðar hvarf hún.

Frá þessu greinir fréttavefur Aftenposten. Þar segir ennfremur, að dóttir mannsins hafi fundist í Norður-Írak fyrr á þessu ári, verið komið þar í örugga höfn og síðan flutt aftur til Noregs.

Fangelsisdómurinn, sem kveðinn var upp í dag, er harðasta refsing sem gerð hefur verið í Noregi fyrir brot á lögum um bann við nauðungarhjónaböndum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert