Ekki sameiginlegt lið

Kóreyskir kafarar í sýna Tae-Kwon do í fiskabúri á sýningu …
Kóreyskir kafarar í sýna Tae-Kwon do í fiskabúri á sýningu í Seoul vegna ólympíuleikanna. Retuers

Norður- og Suður-Kórea munu ekki ganga saman við opnunarhátíð ólympíuleikanna í Peking á föstudag. Viðræður um sameiginlegt lið gengu ekki upp.

Forseti alþjóðlegu ólympíunefndarinnar, Jacques Rogge, sagði í morgun að samningaviðræður um sameiginlega göngu hefðu farið út um þúfur og sagði þetta mikla afturför fyrir friðarumleitanir og sameiningarviðræður á Kóreuskaga.

Íþróttamenn frá kóreysku löndunum tveimur gengu saman í eins búningi og með blátt og hvítt sameiningarflagg á leikunum 2000 í Sydney og svo aftur 2004 í Aþenu.

„Við reyndum að gera það sama í Peking en það tókst því miður ekki,“ sagði Rogge.

Hann sagði að mikill vilji hefði verið fyrir hendi hjá ólympíunefndum beggja þjóða.

„Því miður voru yfirvöld í báðum löndum þessu ekki sammála og ég harma það ákaflega.“

Rogge sagði að hann hefði sent leiðtogum ríkjanna tveggja sjálfur bréf þar sem hann biður um sameiginlega göngu landanna.

Ríkin tvö börðust hvort við annað í Kóreustríðinu 1950-1953 og endaði það með vopnahléi en ekki friðarsamkomulagi þannig að ríkin eiga tæknilega séð enn í stríði.

Sáttaviðræður hafa ekki átt sér stað síðan að nýr íhaldssamur forseti tók við í Suður-Kóreu í febrúar. Lee Myung-bak hefur mun harðari afstöðu gagnvart Pyongyang heldur en fyrirrennari hans.

Ríkin tvö höfðu rætt saman um möguleikann á því að senda eitt lið til leikanna. Viðræður runnu hins vegar út í sandinn vegna ósamkomulags um samsetningu liðsins. Suður-Kórea vildi að hæfni réð samsetningu en Norður-Kórea vildi að skipting væri jöfn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert