Máritaníu vikið úr Afríkusambandinu

Mohamed Ould Abdel Aziz sem leiddi valdaránið.
Mohamed Ould Abdel Aziz sem leiddi valdaránið. AP

Afríkusambandið hefur vikið Máritaníu úr bandalaginu í kjölfar valdaránsins sem var framið í landinu í síðustu viku. Frá þessu greindi forseti Afríkusambandsins í dag.

Hann segir að Máritanía muni ekki tilheyra bandalaginu fyrr en lýðræðislega kjörin stjórn taki aftur við stjórnartaumunum í landinu.

Mohamed Ould Abdel Aziz, sem er fyrrum yfirmaður forsetavarðarins, fór fyrir valdaráninu sl. miðvikudag er forseti landsins, Sidi Ould Cheikh Abdallahi, reyndi að gera breytingar á yfirstjórn hersins í landinu.

Alþjóðasamfélagið hefur fordæmt valdaránið. Hin nýja herforingjastjórn landsins hefur hins vegar heitið því að halda kosningar sem verði bæði sanngjarnar og gagnsæjar.

Í gær komu hundruð mótmælenda saman í höfuðborg landsins Nouakchott til að mótmæla valdaráninu. Afríkusambandið og fulltrúar frá Arababandaladinu reyna nú að miðla málum til að koma í veg fyrir að neyðarástand skapist í landinu, en þar búa um þrjár milljónir manna.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert