Bush: Rússar virði landamæri

George W. Bush, Bandaríkjaforseti, las í dag stutta yfirlýsingu um átökin í Georgíu og sagði að Rússar yrðu að virða landamæri og fullveldi Georgíu. Hann sagði, að Rússar yrðu að fara með her sinn út úr landinu og sagðist hafa fréttir um áframhaldandi hernaðaraðgerðir Rússa valda áhyggjum.

Rússar hafa borið á móti því að þeir hafi lagt undir sig bæinn Gori og segja að rússneskir hermenn þar séu aðeins að hreinsa til og tryggja þannig öryggi óbreyttra borgara. Rússlandsher tilkynnti þó síðdegis, að hann hefði skotið niður tvær ómannaðar eftirlitsflugvélar Georgíumanna yfir Tskhinvali, höfuðborg Suður-Ossetíu.

Bush kom út í Rósagarðinn við Hvíta húsið eftir að hafa fundað með þjóðaröryggisráði sínu um Georgíumálið. Hann sagði, að Bandaríkjastjórn stæði með lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum í Georgíu og krefðist þess, að fullveldi ríkisins og landamæri séu virt.

Hann sagðist ætla að senda Condoleezzu Rice, utanríkisráðherra, til Frakklands til viðræðna við Nicolas Sarkozy, forseta, og síðan til Georgíu til að sýna Georgíumönnum stuðning

Einnig sagði Bush, að Rússar yrðu að leyfa Bandaríkjamönnum og öðrum þjóðum að flytja hjálpargögn til Georgíu. Sagði hann að bandarísk flutningaflugvél væri á leiðinni til Georgíu með vistir.

„Rússar verða að standa við orð sín og binda enda á þetta ástand vilji þeir bæta þann skaða, sem orðið hefur á sambandi þeirra við Bandaríkin, Evrópu og aðrar þjóðir," sagði Bush. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert