Fullsaddir á kannabisferðamönnum

Hollenskir bæjar- og borgarstjórar segjast hafa fengið sig fullsadda á þeim vandræðum sem fylgja þúsundum erlendra ferðamanna sem flykkjast til landsins í viku hverri til að neyta kannabiss á kaffistofum vítt um landið.

Svokallaðar kaffistofur sem hafa leyfi til sölu á kannabis skipta hundruðum í Hollandi. Þar er heimilt að selja hverjum einstaklingi fimm grömm af kannabis á dag. Ferðamönnum, sem koma gagngert til að heimsækja kaffistofurnar og neyta kannabiss, hefur fjölgað gríðarlega síðustu ár. Allt að 25 þúsund manns koma í viku hverri, gagngert til að heimsækja hollenskar kaffistofur. Bæjar- og borgaryfirvöld segja að nú sé nóg komið og benda á að vandamálin sem fylgi þessum ferðamönnum, séu ekki lengur líðandi. Áhrifin á daglegt líf í borgum og bæjum landsisn séu svo neikvæð að ekki verði lengur við unað.

Blásið hefur verið til fundar bæjar- og borgarstjóra þar sem ræða á hugsanlegar aðgerðir gegn þessari plágu, eins og margir vilja kalla það.

Að minnsta kosti tveimur kaffistofum, sem hafa leyfi til sölu kannabiss og eru næstar landamærum Belgíu, verður lokað 1. febrúar á næsta ári.

Hollensk yfirvöld tilkynntu í síðustu viku að frá og með 1. desember næskomandi, yrði bannað að rækta og selja ofskynjunarsveppi, sem líka hafa notið mikilla vinsælda meðal erlendra ferðamanna sem sækja kaffistofurnar.

Efasemdir um ágæti frjálsræðis Hollendinga í fíkniefnamálum hafa vaxið mjög á síðustu misserum. Þingmenn stjórnarflokka telja rétt að endurskoða þá löggjöf sem heimilar sölu svokallaðra mildari fíkniefna, eins og kannabiss.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert