Fyrsti þeldökki dómsmálaráðherra Bandaríkjanna?

Barack Obama, verðandi forseti Bandaríkjanna, hefur tilnefnt lögmanninn Eric Holder í embætti dómsmálaráðherra, að sögn bandarískra fjölmiðla í kvöld. Staðfesti öldungadeild þingsins tilnefninguna verður Holder fyrsti þeldökki dómsmálaráðherra landsins.

Holder hefur þegið boð Obama um að verða dómsmálaráðherra, að sögn vikublaðsins Newsweek og NBC-sjónvarpsins. Líklegt er að Obama tilkynni þetta ekki formlega fyrr en hann hefur valið fjármálaráðherra og utanríkisráðherra, að sögn Newsweek.

Holder er 57 ára og nam við Columbia-háskóla í New York eins og Obama. Hann hefur starfað hjá lögmannastofu í Washington. Hann var áður saksóknari í höfuðborginni og Bill Clinton, þáverandi forseti, skipaði hann aðstoðardómsmálaráðherra árið 1997.

Fréttaskýrendur segja, að Holder sé kjörinn í starfið vegna reynslu sinnar og hann sé einnig táknrænn kostur þar sem hann sé Bandaríkjamaður af afrískum ættum líkt og Obama. Holder tók einnig virkan þátt í kosningabaráttu Obama.

Holder var, ásamt Caroline Kennedy, formaður nefndar sem hafði umsjón með vali á varaforsetaefni Obama.

Núverandi dómsmálaráðherra Bandaríkjanna er Michael Mukasey en þeir Alberto Gonzalez og John Ashcroft hafa einnig gegnt embættinu í forsetatíð George W. Bush. Ashcroft sagði af sér þegar fyrra kjörtímabili Bush lauk en Gonzalez sagði af sér 2007 vegna deilna um uppsagnir nokkurra saksóknara. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert