Óvinir lýðræðisins

Þeir sem hafa staðið fyrir óeirðum í Aþenu og öðrum grískum borgum eru óvinir lýðræðisins, sagði Costas Karamanlis, forsætisráðherra Grikklands, í sjónvarpsávarpi til grísku þjóðarinnar nú undir kvöld.

„Allir þeir, sem fara með ofbeldi og eyðileggingu eru óvinir lýðræðisins," sagði Karamanlis og hvatti til þjóðareiningar. Fyrr í dag fór hann fram á, að mótmælaaðgerðum, sem boðaðar hafa verið á morgun, verði aflýst.

Upp úr sauð í Grikklandi á laugardag þegar lögreglumaður skaut 15 ára gamlan dreng til bana. Hafa verið daglegar óeirðir síðan þar sem ungmenni hafa skemmt verslanir, banka og stjórnarbyggingar og bíla. Þá hefur stjórnarandstaðan í Grikklandi krafist þess að ríkisstjórnin víki.

Karamanlis sagði, að ríkisstjórnin myndi halda ró sinni og binda enda á óeirðirnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert