Svartfjallaland sækir um ESB

Milo Djukanovic ásamt Olli Rehn og Nicolas Sarkozy á tröppum …
Milo Djukanovic ásamt Olli Rehn og Nicolas Sarkozy á tröppum Elysee hallarinnar í dag Reuters

Svartfjallaland tók í dag fyrsta skrefið í átt að aðild að Evrópusambandinu, á fundi Milo Djukanovic, forseta landsins, með Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseta í dag. Um 650.000 manns búa í Svartfjallalandi, sem lýsti yfir sjálfstæði sínu árið 2006.

„Við erum meðvituð um að við eigum nú erfitt tímabil í vændum, en við erum reiðubúin að hefja samvinnu og takast á við allar þær áskoranir sem munu mæta okkur á þessari leið,“ sagði Djukanovic eftir fundinn í dag. Búist er við því að ákvörðun Svartfjallalands muni vera hvatning fyrir önnur Balkanlönd, svo sem Albaníu og Serbíu, að sækja einnig um aðild.

Djukanovic fundaði einnig með Olli Rehn, stækkunarmálastjóra sambandsins, í dag en hann lýsti því yfir í síðustu viku að Svartfjallaland ætti enn langt í land með að mæta kröfum Evrópusambandsins.

Svartfjallaland notast nú þegar við evruna sem gjaldmiðil þrátt fyrir að vera ekki formlega meðlimur evrusvæðisins.  Það var síðasta ríkið úr fyrrum ríkjasambandinu Júgóslavíu til að lýsa yfir sjálfstæði sínu árið 2006 og var Ísland raunar fyrsta ríkið til að viðurkenna sjálfstæði þess á sínum tíma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert