Flestir færir um pyntingar

Ónýtur T-55 skriðdrekar Íraka við bæinn Abu al-Khasib við Basra …
Ónýtur T-55 skriðdrekar Íraka við bæinn Abu al-Khasib við Basra þar sem pyntingarstöð fannst. mbl.is

Rúmlega 70% einstaklinga eru færir um og tilbúnir til að valda öðrum sársauka sé þeim sagt að gera það, samkvæmt nýrri rannsókn sem byggð er á hinni frægu Milgram- rannsókn. Þetta kemur fram á fréttavef BBC. 

Rannsóknin er gerð með þeim hætti að sjálfboðaliðum er sagt að gefa fólki rafstraum í hvert skipti sem það svarar ákveðnum spurningum vitlaust og auka rafstrauminn jafnt og þétt.

Niðurstaða nýju rannsóknarinnar er sú að næstum átta af hverjum tíu einstaklingum gera það sem þeim er sagt jafnvel þótt það valdi því að önnur manneskja æpi af sársauka.  Hluti þeirra sem þá tók þátt í upphaflegu könnuninni reyndist einnig tilbúinn til að halda áfram að fylgja skipunum þrátt fyrir að fórnarlambið virtist hafa misst meðvitund eða jafnvel látið lífið. 

Við rannsóknina nú var ekki gengið svo langt þar sem stjórnandi hennar Dr Jerry Burger, sem starfar við háskólann í Santa Clara í Bandaríkjunum, segir eftirköst þess hafa verið of mikil fyrir þá sem tóku þátt í fyrri könnuninni.

Hann segir niðurstöðu rannsóknarinnar nú hins vegar sanna enn á ný að flest venjulegt fólk sé fært um að fremja glæpi. „Niðurstöður okkar sannreyna það sem áður hefur komið fram, þ.e. að viðbrögð fólks komi á óvart og veki ugg, sé það sett í ákveðnar aðstæður."

Rannsókn  af þessu tagi var fyrst gerð af Stanley Milgram við Yale-háskóla í Bandaríkjunum árið 1963 en í báðum rannsóknum var leikari í hlutverki meints fórnarlambs og ekki um raunverulegan rafstraum að ræða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert