Íbúar Gaza hvattir til að yfirgefa heimili sín

Ísraelskir hermenn við Gazasvæðið.
Ísraelskir hermenn við Gazasvæðið. AP

Ísraelski flugherinn varpaði í kvöld miðum niður á Gazasvæðið með þeim tilmælum um að allir íbúar yfirgæfu heimili sín, að því er erlendir fjölmiðlar greindu frá. Er þetta túlkað sem tákn um að sókn á landi sé á næsta leiti.

Ekki sáust nein teikn á lofti um vopnahlé í dag. Hingað til hafa 425 Palestínumenn látið lífið í árásum Ísraelsmanna og 2.000 særst. Í Ísrael eru fjórir óbreyttir borgarar sagðir hafa látið lífið í flugskeytaárásum frá Gaza á ísraelskar borgir. Samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum er fjórðungur þeirra sem drepnir hafa verið á Gaza í vikunni óbreyttir borgarar.  En samkvæmt upplýsingum frá palestínskum mannréttindasamtökum eru óbreyttir borgarar 40 prósent fórnarlambanna.

Í dag var greint frá því að 10 manns hefðu fallið í 30 loftárásum ísraelska hersins. Þrjú börn á aldrinum átta til 12 ára urðu fyrir flugskeyti þar sem þau voru að leik úti á götu í bænum Khan Yunes. Hamas samtökin skutu í dag um tuttugu flugskeytum að Ísrael.

Í kvöld funduðu leiðtogar Ísraels og mun fundarefnið hafa verið fyrirhugaður landhernaður gegn Palestínumönnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert