Jarðarbúar verða 9 milljarðar 2050

Jarðarbúar verða 9 milljarðar árið 2050 skv. spá SÞ.
Jarðarbúar verða 9 milljarðar árið 2050 skv. spá SÞ. Reuters

Áætlað er að fólksfjöldi jarðar verði orðinn meiri en 9 milljarðar árið 2050 samkvæmt skýrslu sem Sameinuðu þjóðirnar birti í dag. Í ár eru jarðarbúar 6,8 milljarðar en munu væntanlega ná sjöunda milljarðinum snemma árs 2012.

Flestir þessara 2,3 milljarða manna sem við bætast verða búsettir í þriðja heiminum samkvæmt skýrslunni, en þar er búist við að fólki fjölgi úr 5,6 milljörðum í ár upp í 7,9 milljarða árið 2050. Á sama tíma er áætlað að 1,29 milljarður bætist við í þróaðari löndum. Sá fjöldi hefði sennilega orðið 1,15 milljarðar ef ekki væri fyrir væntanlega búferlaflutninga fólks frá þróunarlöndunum, en búast má við að 2,4 milljónir manna flytjist að meðaltali til þróaðari landa á ári hverju næstu 40 árin.

Á árunum 2005-2010 var fjölgun af völdum búferlaflutninga meira en tvöfalt meiri en hefðbundin fólksfjölgun (fæðingar umfram dauðsföll) í 8 löndum heimsins; Belgíu, Macau, Tékklandi, Lúxemborg, Quatar, Singapore, Slóveníu og á Spáni.

Bandaríkin tróna hátt á toppi lista Sameinuðu þjóðanna yfir þau lönd sem talið er að flestir muni flytjast til á tímabilinu 2010-2050. Að meðaltali er áætlað að 1,1 milljón manna flytjist búferlaflutningum til Bandaríkjanna, en næst á eftir kemur Kanada með 214 þúsund manns á ári, þá Bretland með 174 þúsund og á eftir koma Spánn, Ítalía, Þýskaland, Ástralía og Frakkland, öll með yfir 100 þúsund innflytjendur á ári.

Mexíkó er hinsvegar það land sem búist er við að flestir flytji frá á sama tímabili, eða 334 þúsund árlega. Næst á eftir fylgir Kína með 309 þúsund brottflutta á ári, þá Indland, Filippseyjar og Pakistan.

„Þessi skýrsla er tímabær áminning til leiðtoga heimsins um langtíma afleiðingar þess að fjárfesta ekki í þörfum 200 milljóna kvenna sem skortir aðgang að öruggum og áhrifaríkum getnaðarvörnum,“ segir Thoraya Ahmed Obaid hjá Mannfjöldasjóði Sameinuðu þjóðanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert