Lýsir aðferðunum sem pyntingum

Barack Obama á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í gær í …
Barack Obama á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í gær í tilefni þess að hann hefur gegnt forsetaembættinu í hundrað daga. LARRY DOWNING

Barack Obama, Bandaríkjaforseti, telur að vatnsyfirheyrsluaðferðir þær sem Georg W. Bush, fyrrum forseti Bandaríkjanna, heimilaði hafi verið pyntingar. Að hans mati hefði mátt fá upplýsingarnar, sem náðust upp úr meintum hryðjuverkamönnum með pyntingunum, með því að beita öðrum aðferðum. Þetta kom fram á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í gærkvöldi sem haldinn var í tilefni af því að Obama hefur gegnt forsetaembættinu í hundrað daga. Greint er frá þessu á fréttavef Yahoo.

Þetta var þriðji blaðamannafundurinn sem Obama heldur frá því hann tók við embætti og sá fyrsti þar sem efnahagskrísan var ekki í brennidepli. Á fundinum voru m.a. rætt um stríðsrekstur Bandaríkjamanna, svínaflensan sem virðist breiðasta hratt út og fóstureyðingar svo fátt eitt sé nefnt.

Obama hefur sætt mikilli gagnrýni frá fyrrum varaforseta Bandaríkjanna, Dick Cheney og öðrum repúblíkönum sem hvetja forsetann til þess að opinbera minnisblöð sem þeir segja að muni sýna hinar harkalegu yfirheyrsluaðferðir, sem forseti Obama í starfi leyfði, hafi verið árangursrík leið til þess að afla upplýsinga. 

Aðspurður sagði Obama á blaðamannafundinum að hann hefði lesið þessi minnisblöð, en sagði þau trúnaðargögn og neitaði að ræða innihald þeirra í þaula. 

Forsetinn sagðist fullviss um að vopnabúr Pakistana myndi ekki falla íslömskum öfgamönnum í skaut. Sagðist hann hafa fulla trú á því að Pakistanar myndu útkljá sín eigin mál, en útilokaði þó ekki að Bandaríkjamenn myndu grípa til aðgerðar til þess að tryggja að vopnin héldust í öruggum höndum. 

Obama lýsti áhyggjum sínum af því að stjórnvöld í Pakistan virtust ófær um að tryggja grunnþjónustu í landinu, sem væri ein aðalforsenda þess að almenningur þar í landi treystu þeim og styddu. Slíkur stuðningur væri nauðsynlegur til þess að koma í veg fyrir að Talíbanar næðu undirtökunum í landinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert