Misþyrmdi fyrrverandi kærustu sinni

mbl.is/Kristinn

Átján ára piltur hefur verið kærður fyrir frelsissviptingu, ofbeldi og hótanir í kjölfar þess að hann þvingaði 16 ára fyrrverandi kærustu sinni inn í bíl sinn í gær og ók á brott með hana. Þetta er haft eftir lögreglunni á Austur-Jótlandi og um málið fjallað á vef danska dagblaðsins Berlingske Tidende. 

Stúlkan beið strætisvagnastöð þegar fyrrverandi kærasti hennar birtist skyndilega á bílnum sínum. Hann réðst á stúlkuna með höggum og spörkum þannig að hún féll við. Því næst dró hann hana á hárinu inn í bíl sinn og ók á brott. 

Meðan hann ók um borgina reyndi stúlkan ítrekað að komast út úr bílnum, en við það hóf hann að berja á henni inni í bílnum. Það var ekki fyrr en um tuttugu mínútum síðar þegar hann fékk upphringingu frá lögreglunni þar sem hann var upplýstur um það að honum væri veitt eftirför að hann ákvað að sleppa stúlkunni sem stórsá á.

Mikael Larsen, lögreglustjóri á vakt hjá lögreglunni á Austur-Jótlandi, segir málið litið mjög alvarlegum augum. „Þetta er með því grófara sem við höfum séð. Það á auðvitað ekki að vera þannig að maður eigi á hættu að vera barinn í klessu og numinn á brott bara af því að ástarsambandi lýkur,“ segir Larsen. 

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni var stúlkunni ekið á slysavarðsstofuna en þar sem gert var að sárum hennar og hún síðan útskrifuð. Kærastinn fyrrverandi verður leiddur fyrir dómara í dag. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert