Snemmbúin heimsókn Obama kostar milljarð aukalega

Barack Obama
Barack Obama JIM YOUNG

Sú ákvörðun Barack Obama, Bandaríkjaforseta, að koma til Kaupmannahafnar fyrr en aðrir þjóðarleiðtogar heims til að ræða loftlagsmálin kemur til með að kosta danska ríkið 40-50 milljónir danskra króna aukalega eða sem samsvarar 1-1,2 milljörðum íslenskra króna.

Fundurinn hefst eftir rúmlega viku og lýkur 19. desember nk. en fundað verður í Bella Center í höfuðborg Danmerkur. Þetta kemur fram á vef danska dagblaðsins Politiken í dag.

Lögreglan í Kaupmannahöfn þarf að auka alla öryggisgæslu viku fyrr en áætlað hafði verið vegna komu Bandaríkjaforseta.

„Við munum þurfa að skipuleggja bílalestir fyrr en ella. Samtímis þurfum við að vakta tiltekin svæði í borginni, auk þess sem við þurfum að útvega lífverði og loka ákveðnum svæðum,“ segir Mogens Lauridsen, yfirmaður lögreglunnar í Kaupmannahöfn. Hann vill ekki gefa upp hvað þetta kostar, en samkvæmt upplýsingum frá Ríkislögreglustjóra landsins hleypur kostnaðurinn á 40-50 milljónum danskra króna aukalega.

„Vinnutíma lögreglumanna verður breytt viku fyrr en ætlað hafði verið, því nær allir lögreglumenn borgarinnar þurfa að vinna á 12 tíma vöktum þessa daga og það kostar meira. Ég geng út frá því að þessum kostnaði okkar verði mætt, þannig að við þurfum ekki að skera niður á öðrum sviðum löggæslunnar,“ segir Claus Oxfeldt hjá Lögreglusambandinu. Þar á bæ meina menn að auka kostnaðurinn eigi að að greiðast úr ríkissjóði.

Tímasetningin á heimsókn Obama skapar ekki aðeins óþægindi í skipulagningu löggæslunnar, heldur hefur hún einnig áhrif á samningsleiðir dönsku ríkisstjórnarinnar. Ætlunin hafði verið að allir þjóðarleiðtogar heims hittust á sameiginlegum fundi sínum 18. desember til þess að undirrita nýtt samkomulag í loftlagsmálum. Þar sem Obama kemur til Danmerkur viku fyrr eru litlar sem engar líkur taldar til þess að hann mæti aftur á fund 18. desember.

Sökum þessa hyggst danska ríkisstjórnin nota ræðuna sem talið er að Obama muni halda meðan á heimsókn hans stendur, sem tæki til þess að ná samstöðu um pólitíska sýn. Því er veitt athygli að heimsókn Obama til Kaupmannahafnar á sér stað daginn áður en leiðtogar Evrópusambandsríkjanna hittast í Brussel.

Í danska forsætisráðuneytinu vona menn að Obama muni endurtaka markmið sín í loftlagsmálum eða lofa fjármögnun til þess að hægt verði að samþykkja nýjan samning, en slíkt væri hægt að nota til þess að þvinga aðra þjóðarleiðtoga til þess að setja markið hærra í samningaviðræðum sínum.

„Ég held að Obama hafi þegar gefið allt sem hann mögulega getur gefið,“ segir John Nordbo, verkefnastjóri loftlagsmála hjá WWF, sem sér alla annmarka á því að Obama leggi leið sína til Kaupmannahafnar viku fyrr en aðrir leiðtogar heims. 

„Verst er að hann sendir skýr skilaboð þess efnis að hann muni ekki koma að samningaborðinu á síðustu metrunum. Það er mikil þörf á því að hann komi að því borði, því annars getur Merkel eða Kínverjarnir ekki varið háleit markmið fyrir íbúum sinna landa,“ segir hann.

Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseti, er síður en svo ánægður með forgangsröðun Obama. „Úrslitastundin verður 17. og 18. desember. Ef sumir koma í upphafi og aðrir í lokin, munum við þá geta komist að sameiginlegri niðurstöðu?“ spyr forsetinn.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert