Livni fagnar morðinu í Dúbaí

Tzipi Livni
Tzipi Livni Reuters

Tzipi Livni, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Ísrael, segist fagna morðinu á Mahmoud al-Mabhouh, leiðtoga Hamas, sem myrtur var á hóteli í Dúbaí en allt virðist benda til þess að ísraelska leyniþjónustan standi að baki morðinu. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins.

„Sú staðreynd að hryðjuverkamaður var drepinn, og það skiptir ekki máli hvort það var í Dúbaí eða á Gaza, eru góðar fréttir fyrir þá sem berjast gegn hryðjuverkum,“ hefur Livni látið hafa eftir sér.

Ummæli hennar hafa vakið athygli, því þetta er talið í fyrsta skipti sem hátt settur stjórnmálamaður í Ísrael hefur tjáð sig með þessum hætti.

Livni, sem er fyrrverandi utanríkisráðherra landsins, fer nú fyrir stjórnarandstöðunni. Með ummælum sínum gaf hún ekkert uppi um það hver hafi staðið að baki morðinu.

„Heimsbyggðin öll verður að styðja þá sem berjast gegn hryðjuverkamönnum,“ sagði hún á ráðstefnu gyðinga í Jerúsalem. Tók hún fram að ósiðlegt væri að bera saman annars vegar hryðjuverkamenn og hins vegar þá sem berðust gegn þeim. 

Avigdor Lieberman, núverandi utanríkisráðherra, hefur svarað ásökunum þess efnis að Mossad, ísraelska leyniþjónustan, hafi staðið að baki morðinu með því að segja: „Ísrael svarar aldrei slíkum ásökunum, hvorki staðfestir þær né vísar þeim á bug.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert