Flugstjórinn fann öskulykt og sneri við

Flugvélar á vellinum í Manchester.
Flugvélar á vellinum í Manchester. Reuters

Flugstjóri flugvélar frá bresku leiguflugfélagi taldi sig finna öskulykt þegar hann var á leið frá Manchester á Englandi áleiðis til Miðjarðarhafseyjarinnar Krítar. Þegar mælar sýndu einnig truflanir í öðrum hreyfli flugvélarinnar ákvað flugstjórinn að snúa við og halda aftur til Englands.

Um var að ræða flugvél af gerðinni Boeing 757 frá fyrirtækinu Thomas Cook, sem átti að sækja farþega til Krítar í fyrrinótt en aðeins áhöfnin var um borð. Að sögn breska blaðsins The Sun var flugvélin komin yfir Norðursjó þegar flugstjórinn tilkynnti að hann fyndi sterka lykt af eldfjallaösku. Flugstjórinn tilkynnti síðan um bilun í loftinntaki í öðrum hreyflinum og ákvað að snúa við.

Blaðið segir að sérfræðingar telji að eldfjallaaska kunni að hafa stíflað loftinntakið, sem sogar inn loft til að viðhalda loftþrýstingi í farþegarými flugvélarinnar.  

Umrædd flugvél var meðal þeirra fyrstu, sem fóru á loft frá Manchester þegar flugbanni yfir Bretlandi var aflétt á þriðjudagskvöld. Flugvélin var í 6 km hæð yfir Stafford og var þá enn að hækka flugið.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert