Gríðarleg öryggisgæsla í Svíþjóð

Viktoría krónprinsessa og Daníel Westling voru viðstödd tónleika sem fóru …
Viktoría krónprinsessa og Daníel Westling voru viðstödd tónleika sem fóru fram í konunglegu tónleikahöllinni í Stokkhólmi í kvöld. Reuters

Lögreglan í Stokkhólmi í Svíþjóð hefur haft í nógu að snúast undanfarna daga við að skipuleggja umfangsmestu lögregluaðgerð sem hún hefur ráðist í. Um 2.000 lögreglumenn verða á vakt á morgun þegar Viktoría krónprinsessa Svía mun ganga að eiga Daníel Westling.

„Þetta er umfangsmesta lögregluaðgerð sem við höfum nokkru sinni ráðist í í Stokkhólmi,“ segir Ulf Göransson, talsmaður lögreglunnar við blaðamenn.

Hann segir að um 2.000 lögreglumenn muni ganga um götur höfuðborgarinnar á morgun. Þá munu 6.000 hermenn einnig vera á vaktinni, en sænska ríkisútvarpið segir að sænski herinn hafi aldrei tekið að sér jafn viðamikið verkefni.

„Þetta er mjög stórt verkefni fyrir okkur. Við höfum aldrei gert nokkuð í líkingu við þetta en umfangið er sérstaklega mikið að þessu sinni,“ segir herforinginn Richard Beck-Friis Haell í samtali við útvarpið. 

Að lokinni giftingarathöfn munu 18 Gripen herþotur fljúga yfir Stokkhólm í 400 metra hæð.

Talsmaður lögreglunnar segir að sænska lögreglan hafi heimsótt kollega sína í Danmörku og Noregi og leitað ráða varðandi skipulag öryggismála fyrir konungleg brúðkaup.

Búist er við miklu fjölmenni í höfuðborginni á morgun, þar á meðal fjölskyldufólki með börn. Lögreglan er t.d. búin að setja upp hvorki fleiri né færri en átta miðstöðvar í borginni fyrir börn sem hafa týnt foreldrum sínum. 

Friðrik krónprins Dana og Mary krónprinsessa mættu einnig til leiks.
Friðrik krónprins Dana og Mary krónprinsessa mættu einnig til leiks. Reuters
Gústaf Svíakonungur og Silvía Svíadrottning létu sig ekki vanta.
Gústaf Svíakonungur og Silvía Svíadrottning létu sig ekki vanta. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert