Reynir að koma í veg fyrir bókabrennu

Bandaríski hershöfðinginn David Petraeus hefur beðið prest í Flórída um að hætta við að brenna Kóraninn, helgirit múslíma, 11. september nk., en þá verða níu ár liðin frá hryðjuverkaárásunum á Bandaríkin.

Presturinn Terry Jones, sem fer fyrir fámennum söfnuði kristinna öfgamanna, hyggst senda íslömskum öfgamönnum skilaboð með bókabrennunni á laugardag. 

Petraeus varar hins vegar við afleiðingunum sem hann segir að geti verið mjög alvarlegar. Hann óttast að öfgahópar muni sæta færis og nýta myndir af bókabrennunni málstað sínum til framdráttar. Myndefnið færi á netið og yrði þar til frambúðar. „Þær verða notaðar af þeim sem vilja okkur illt og til að hvetja til ofbeldisverka, og til hafa neikvæð áhrif á almannaálitið á okkur og verkefnum okkar hér í Afganistan. Og án vafa á verkefnum okkar um allan heim,“ segir Petraeus.

Hann hefur bæst í hóp bandarískra embættismanna og trúarleiðtoga sem hafa fordæmt hina fyrirhuguðu bókabrennu. 

Muhammad Musri, sem er trúarleiðtogi múslíma í Flórída, átti nýverið fund með Jones og bað hann um að hætta við fyrirætlanir sínar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert