Kínverskur andófsmaður fær Nóbelsverðlaun

Kínverski andófsmaðurinn Liu Xiaobo hlýtur friðarverðlaun Nóbels í ár. Thorbjørn Jagland, formaður verðlaunanefndar norska Stórþingsins, tilkynnti þetta í dag og sagði að Liu fengi verðlaunin fyrir langa og friðsamlega baráttu hans fyrir mannréttindum í Kína.

Liu, sem er 54 ára rithöfundur og háskólaprófessor, afplánar nú 11 ára fangelsi fyrir að grafa undan kínverska ríkinu. Jagland sagði, að Nóbelsnefndin hefði hvorki náð sambandi við Liu né eiginkonu hans. Tilkynningu um verðlaunin verði komið á framfæri við viðeigandi stjórnvöld. Jagland sagðist einnig hafa reynt að ná sambandi við sendiherra Kína í Ósló en hann var sagður á ferðalagi.

Í yfirlýsingu sinni sagði verðlaunanefndin, að hún hafi lengi verið þeirrar skoðunar, að náin tengsl séu á milli mannréttinda og friðar. Slík réttindi séu grundvöllur bræðralags þjóða, sem Alfred Nobel skrifaði um í erfðaskrá sinni.

Þá segir nefndin, að á síðustu áratugum hafi Kína náð árangri í efnahagsmálum, sem sé nánast einsdæmi í mannkynssögunni. Kína sé nú annað stærsta hagkerfi jarðar og efnahagur hundruða milljóna manna hafi batnað. Þá hafi möguleikar almennings á stjórnmálaþátttöku aukist.

„Þessi nýja staða Kína felur það einnig í sér að landið þarf að axla aukna ábyrgð. Kínverjar brjóta nú gegn nokkrum alþjóðasáttmálum, sem þeir hafa skrifað undir, og einnig eigin reglur um stjórnmálaréttindi. 35. grein kínversku stjórnarskrárinnar kveður á um, að „borgarar í Alþýðulýðveldinu Kína njóti málfrelsis, prentfrelsis, félagafrelsis og frelsis til að halda fundi og mótmæla." Í raun hafa þessi réttindi verið afar takmörkuð," segir í tilkynningu nefndarinnar.

Nóbelsnefndin segir, að Liu Xiaobo hafi í tvo áratugi barist fyrir því að grundvallarmannréttindi séu virt í Kína. Hann hafi tekið þátt í mótmælaaðgerðunum á Torgi hins himneska friðar árið 1989 og hann hafi verið einn af höfundum Charter 08-yfirlýsingarinnar fyrir tveimur árum þar sem krafist var pólitísks frelsis í Kína. Um 300 manns undirrittuðu hana, þ. á m. landsþekktir menntamenn. 

Á síðasta ári var Liu dæmdur í 11 ára fangelsi fyrir að hafa reynt að grafa undan ríkisstjórninni.  Liu hefur ítrekað haldið því fram, að sá dómur brjóti bæði gegn stjórnarskrá Kína og grundvallarmannréttindum.

„Margir Kínverjar, bæði heima og erlendis, berjast fyrir mannréttindum. En Liu hefur orðið helsta tákn þessarar baráttu vegna hins þunga dóms, sem hann hefur hlotið," segir síðan í yfirlýsingu Nóbelsverðlaunanefndarinnar. 

Friðarverðlaun Nóbels voru fyrst afhent árið 1901 og þá hlutu Jean Henry Dunant og Frederic Passy, stofnendur Rauða krossins, verðlaunin. Síðan hafa þau verið veitt í 91 skipti en í 19 skipti ákvað verðlaunanefndin að veita þau ekki. 

Liu Xiaobo.
Liu Xiaobo.
Liu Xia, eiginkona Liu Xiaobo, með mynd af eiginmanni sínum.
Liu Xia, eiginkona Liu Xiaobo, með mynd af eiginmanni sínum.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert