Wikileaks birtir skjölin

Julian Assange stofnandi Wikileaks.
Julian Assange stofnandi Wikileaks. ANDREW WINNING

Wikileaks hefur birt mikið magn bandarískra leyniskjala. Í þeim kemur m.a. fram að Arabaríki, m.a. Saudi-Arabía, hvöttu Bandaríkin til að ráðast á Íran til að stöðva kjarnorkuvopnaáætlun þeirra.

Þessi nýjasti leki á Wikileaks inniheldur meira gagnamagn en þau sem síðan birti fyrr á þessu ári um stríðin í Írak og Afganistan. 

Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa varað Wikileaks við að birta skjölin með þeim rökum að birtingin setji líf fjölmargra í hættu. Julian Assange, stofnandi Wikileaks, segir að stjórnvöld í Bandaríkjunum séu hrædd við að þurfa að svara fyrir gerðir sínar.

Meðal þess sem kemur fram í skjölunum er að Bandaríkin höfðu áhyggjur af kjarnorkuvopnaeign Pakistana. Einnig er þar að finna áhyggjur af tölvuárásum Kínverja. Þá lýsa bandarískir diplómatar áhyggjum af spillingu í ríkisstjórn Afganistans sem Vesturlönd styðja.

Þar er einnig að finna skjöl um hvernig Bandaríkjastjórn sjái fyrir sér að þróunin verði á Kóreuskaga eftir hrun ríkisstjórnarinnar í N-Kóreu. Á síðunni er hægt að lesa um að Saud-Arabía styrki Al-Qaeda fjárhagslega.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum sendu í kvöld fá sér nýja yfirlýsingu þar sem birting skjalanna er fordæmd. 

Um er að ræða rúmlega 250 þúsund skjöl, sem sendimenn í bandarískum sendiráðum víða um heim hafa sent til bandaríska utanríkisráðuneytisins. Bandaríska blaðið New York Times og breska blaðið Guardian birtu meðal annars fréttir úr skjölunum í kvöld. 

Að sögn New York Times veita skjölin áður óþekkta innsýn í baktjaldamakk bandarískra sendiráða um allan heim en þar er m.a. að finna palladóma um erlenda þjóðarleiðtoga og mat á kjarnorku- og hryðjuverkaógn.  

Guardian segir m.a. að í skeyti, sem Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sendi á síðasta ári, sé listi yfir þær upplýsingar sem bandarískir starfsmenn í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York, eigi að afla, þar á meðal um Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra SÞ.

Þótt margir alþjóðlegir sáttmálar banni njósnir innan SÞ er það opinbert leyndarmál að þjóðir reyna það samt. 

Vefur Guardian

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert